Neville og Carragher deildu um hvernig hópur enska landsliðsins á EM í sumar ætti að líta út. Þeim hljóp sérstaklega mikið kapp í kinn þegar þeir ræddu um Trent Alexander-Arnold, hægri bakvörð Liverpool.
Neville birti myndband af rifrildi þeirra Carraghers eftir þáttinn á Instagram. Neville sagðist hafa orðið fyrir barðinu á scouse-mafíunni, gerði grín að hreim Carraghers og kallaði hann Boris Carragher.
Gamla Liverpool-hetjan skaut á Neville og gagnrýndi hann fyrir frammistöðu Englands á HM 2014 þar sem Neville var aðstoðarþjálfari enska liðsins. Carragher sagði jafnframt að Neville hefði alltaf átt erfitt með fólk frá Liverpool og sagði að hann væri vondur við Alexander-Arnold.
Neville og Carragher höfðu full hátt að mati öryggisvarðar á bílastæðinu sem skammaði þá og bað þá um að róa sig.
Þeir létu segjast en héldu samt áfram að rífast í leigubílnum á leið til baka á hótelið sem þeir dvöldu á.
Neville og Carragher hafa verið saman með Monday Night Football á Sky Sports undanfarin ár.