Raðgreining breska afbrigðisins sýnir að það hafi stökkbreyst en nýja afbrigðið kallast E484K. Um ellefu tilfelli af E484K hafa nú fundist á Bretlandseyjum.
Vísindamenn segja of snemmt að segja til um hvort þau bóluefni sem í notkun eru dugi gegn afbrigðinu. Þegar hefur verið gripið til hertra aðgerða í Bretlandi en í gær fór í gang markviss skimun fyrir suður-afríska afbrigðinu sem fannst á nokkrum svæðum en ekki reyndist unnt að rekja smitin líkt og áður.
Í ljósi þess óttast sóttvarnayfirvöld að suður-afríska afbrigðið sé í útbreiðslu í samfélaginu en vísbendingar eru um að bóluefni dugi ekki nægilega vel gegn afbrigðinu. Þetta sýna til dæmis þriðja fasa rannsóknir bóluefnis Janssen.
Breska ríkisútvarpið hefur eftir Julian Tang, veirusérfræðingi við háskólann í Leicester, að nú sé afar mikilvægt að fólk fari eftir sóttvarnareglum til að reyna að koma í veg fyrir að veiran stökkbreytist enn frekar. Því séu persónulegar sóttvarnir með því mikilvægasta sem almenningur getur gert til að draga úr útbreiðslu.
Jafnvel þótt kæmi í ljós að einhver bóluefni dugi ekki gegn nýjum afbrigðum kórónuveirunnar er vinna þegar hafin við að þróa næstu kynslóð bóluefnis sem tekur mið af nýjum afbrigðum.