Þetta kom fram í stuttri fréttatilkynningu frá Real Madrid í dag. Ekki kom neitt frekar fram um líðan Zidane eða hvaða afleiðingar þetta hefði í för með sér fyrir liðið og leikmannahópinn.
Real, sem er í 2. sæti spænsku 1. deildarinnar, verður þó að minnsta kosti án þjálfarans annað kvöld ef að liðið mætir þá Alavés eins og til stendur. Liðið á að mæta Levante eftir rúma viku og Huesca 6. febrúar.
Zidane þykir orðinn valtur í sessi sem þjálfari Real en liðið er sjö stigum á eftir grönnum sínum í Atlético Madrid í spænsku deildinni. Atlético á leik til góða. Real tapaði gegn C-deildarliði Alcoyano í spænska bikarnum á miðvikudaginn, eftir að hafa tapað gegn Athletic Bilbao í ofurbikarnum.