Fótbolti

Juventus stjarnan jákvæð í fjórða sinn á sex vikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paulo Dybala og Cristiano Ronaldo fagna saman einu af mörkum á þessu tímabili. Cristiano Ronaldo passar sig örugglega á því að koma ekki nálægt Dybala á næstunni.
Paulo Dybala og Cristiano Ronaldo fagna saman einu af mörkum á þessu tímabili. Cristiano Ronaldo passar sig örugglega á því að koma ekki nálægt Dybala á næstunni. Getty/Valerio Pennicino

Paulo Dybala þarf að glíma lengur en flestir við kórónuveiruna en þessi stjörnuleikmaður hjá Juventus þarf að halda sér áfram í einangrun.

Nýjasta prófið sem Paulo Dybala fór í sýndi að hann er enn með kórónuveiruna en þetta var í fjórða sinn á sex vikum sem hann kemur út jákvæður út úr slíku prófi.

Hinn 26 ára gamli Argentínumaður sagði fyrst frá því í mars að hann og kærasta hans, Oriana Sabatini, hefðu bæði fengið COVID-19 sjúkdóminn.

Síðan er liðinn meira en mánuður og að öllu eðlilegu ætti argentínski framherjinn að vera laus við veiruna. Juventus býst líka við því og hefur sent hann margoft í próf en niðurstaðan er alltaf sú sama.

Spænska sjónvarpsstöðin El Chiringuito TV hefur heimildir fyrir því að öll þessi fjögur próf hans á síðustu sex vikum hafi verið jákvæð.

Paulo Dybala hefur sagt frá erfiðri upplifun sinni af því að fá COVID-19 sjúkdóminn en hann átti meðal annars erfitt með andardrátt.

„Sem betur fer líður okkur mun betur þessa dagana og við erum ekki með nein einkenni. Ég var með mikil einkenni um tíma, varð mjög fljótt þreyttur þegar ég reyndi að æfa og þurfti að berjast við að ná andanum eftir aðeins fimm mínútna æfingu,“ sagði Paulo Dybala

„Þá áttaði ég mig á því að eitthvað væri að. Prófin hjá félaginu sýndu að við vorum bæði jákvæð,“ sagði Paulo Dybala.

„Eftir það fengum við enn verri einkenni, eins og hósta, þreytu og kuldaköst. Félagið sagði okkur að þetta yrði allt í lagi og við urðum bara að vera róleg,“ sagði Paulo Dybala.

Paulo Dybala var einn af þremur leikmönnum Juventus sem fengu en hinir voru þeir Blaise Matuidi og Daniele Rugani.

Ítölsku félögin ætla að hefja aftur æfingar 4. maí næstkomandi, fyrst einn á einn og svo í hópum eftir 18. maí. Það er síðan stefnt á það að byrja að spila í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×