Erlent

Ósannsöglum flugmanni kennt um fyrsta innanlandssmit Taívan í 253 daga

Samúel Karl Ólason skrifar
Yfirvöldum í Taívan hefur verið hrósað fyrir viðbrögðin og það að tekist hafi að koma í veg fyrir faraldur í landinu án þess að grípa til umfangsmikilla inngripa í líf almennings.
Yfirvöldum í Taívan hefur verið hrósað fyrir viðbrögðin og það að tekist hafi að koma í veg fyrir faraldur í landinu án þess að grípa til umfangsmikilla inngripa í líf almennings. Getty/Walid Berrazeg

Yfirvöld í Taívan tilkynntu í dag að fyrsta innanlandssmit Covid-19 frá í apríl hefði greinst í landinu. Þetta var tilkynnt í morgun og var flugmanni frá Nýja-Sjálandi kennt um að binda enda á 253 daga tímabil landsins þar sem enginn hafði greinst smitaður innanlands.

Chen Shih-chung, heilbrigðisráðherra, sagði að flugmaðurinn hefði sagt ósatt í smitrakningu um ferðir sínar og samskipti við aðra. Meðal annars við konu sem nú hefur einnig greinst smituð, samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar.

Flugmaðurinn er sagður hafa sótt nokkur fyrirtæki áður en hann greindist smitaður og þar á meðal fjölmenna verslun. Honum hefur verið veitt há sekt.

Frá 12. apríl hafa einungis fáir heimamenn sem hafa verið að koma heim úr ferðalögum greinst smitaðir og nokkrir útlendingar og farandverkamenn. Þeir sem ferðast til Taívan hafa þurft að verja tveimur vikum í sóttkví og komast í gegnum skimun.

Flugmenn hafa þó lútið öðrum reglum. Þeir eiga að fara sjálfir í þriggja daga sóttkví eftir ferðir til annarra landa.

Þetta fyrirkomulag hefur komið í veg fyrir innanlandssmit í 253 daga, eins og áður segir. Nú þegar er komin upp umræða í Taívan um það hvort herða eigi reglurnar gagnvart flugmönnum.

Fljótt eftir að nýja kórónuveiran greindist í dreifingu í Kína gripu ráðamenn í Taívan til aðgerða og lokuðu landamærum eyríkisins. Síðan þá hefur yfirvöldum þar víða verið hrósað fyrir viðbrögðin og það að tekist hafi að koma í veg fyrir faraldur í landinu án þess að grípa til umfangsmikilla inngripa í líf almennings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×