Allar uppskriftirnar úr þáttunum má finna hér á Vísi. Síðasti þátturinn af Jólaboð Evu er svo á dagskrá annað kvöld á Stöð 2 kl.19.05. Eva Laufey mun þar verða í beinni útsendingu.
Ísbomba með After Eight súkkulaði
- Botnar
- 4 eggjahvítur
- 4 dl púðursykur
- 1 tsk edik
Aðferð:
- Stillið ofn á 110°C.
- Setjið bökunarpappír á ofnplötu eða bökunarpappír í botninn á tveimur 22 cm lausbotna formum og smyrjið hliðarnar með smjöri.
- Þeytið eggjahvíturnar og bætið sykri saman við í smáum skömmtum.
- Stífþeytið þar til blandan hreyfist ekki til í skálinni sé henni hvolft.
- Skiptið marengsblöndunni á bökunarpappírinn eða í formin og bakið í 1 ½ klst við 110°C.
Ís fyllingin
- 500 ml rjómi
- 2 eggjarauður
- 2 msk flórsykur
- 1 tsk vanilludropar
- 200 g after eight súkkulaði
Ofan á:
- Súkkulaðisósa
- Fersk ber
Aðferð:
- Þeytið eggjarauður og flórsykur saman þar til eggjablandan verður ljós og létt.
- Þeytið rjóma og bætið eggjablöndunni varlega saman við rjómann með sleikju ásamt vanillu. Í lokin fer súkkulaðið út í rjómablönduna. Setjið kremið á milli botnanna og ofan á. *Best er að setja plastfilmu í formið en þannig er betra að ná kökunni upp úr forminu og sömuleiðis er gott að nota smelluform.
- Kakan fer inn í frysti í nokkrar klukkustundir og þegar þið berið hana fram er gott að búa til súkkulaðisósu dreifa yfir kökuna. Skreytið hana svo með ferskum berjum og saxið niður meira súkkulaði og skreytið – það er aldrei nóg af súkkulaði!

Súkkulaðisósa
- 70 g suðusúkkulaði
- 70 g After Eight súkkulaði
- 1 dl rjómi
Aðferð:
- Bræðið súkkulaði í rjómanum við vægan hita, ef ykkur finnst sósan of þunn þá bætið þið meira súkkulaði saman við.
- Kælið sósuna alveg áður en þið hellið henni yfir kökuna.