Næstu sex mánuðir verða Evrópu erfiðir að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO. Kórónuveirufaraldurinn hefur herjað á álfuna undanfarnar vikur og mánuði.
Hans Kluger, yfirmaður Evrópudeildar WHO, greindi frá því í dag að meira en 29 þúsund hafi látist af völdum Covid-19 í álfunni undanfarna viku.
„Það þýðir að einn deyi á hverjum sautján sekúndum,“ sagði hann á blaðamannafundi í dag.
Hann greindi hins vegar frá því að tilfellum hafi fækkað eftir því sem samkomu- og sóttvarnatakmarkanir hafa verið hertar.
Sú bylgja faraldursins sem nú geisar á meginlandi Evrópu er jafnan sögð önnur bylgja hans. Tilfellum fór að fjölga töluvert í októbermánuði og hafa flest Evrópuríki gripið til harðra aðgerða í von um að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins.
Hingað til hafa 15.738.179 Evrópubúar greinst með veiruna og 354.145 látist vegna hennar. Eingöngu Bandaríkin hafa orðið verr fyrir barðinu á veirunni samkvæmt tölulegum upplýsingum frá WHO.
Lang flest kórónuveirutilfelli og -dauðsföll má rekja til Bretlands, Rússlands, Frakklands, Spánar, Ítalíu og Þýskalands. Lang flestir hafa látist í Bretlandi af öllum Evrópuríkjunum en flestir hafa greinst í Frakklandi.
Að sögn Kluger má rekja 28 prósent allra tilfella á heimsvísu til Evrópu og 26 prósent dauðsfalla. Þá lýsti hann yfir sérstökum áhyggjum yfir ástandinu í Sviss og Frakklandi. Í báðum ríkjunum eru um 95 prósent gjörgæslurýma í notkun.