Rússneskir friðargæsluliðar lögðu í morgun af stað til Nagorno Karabakh héraðs í Aserbaídjan eins og ráð var fyrir gert í vopnahléssamningnum sem undirritaður var í gær af stríðandi fylkingum. Aserar og Armenar hafa háð harða bardaga um héraðið undanfarna mánuði.
Gert er ráð fyrir að rússnesku friðargæsluliðarnir verði um tvö þúsund talsins. Nagorno-Karabakh tilheyrir Aserbaídjan en er að mestu byggt Armenum, sem gera tilkall til svæðisins og hafa í raun stjórnað því að fullu síðustu áratugi. Vopnahléinu var komið á fyrir tilstilli Rússa en ráðamenn í Aserbaídjan hafa þó sagt að Tyrkir muni einnig senda friðargæslulið á svæðið, sem yrði vafalaust þyrnir í augum Armena, en Tyrkir hafa verið stuðningsmenn Asera í átökunum.
Aserar áægðir en Armenar æfir
Rússar hafa á móti stutt Armena, en eiga þó einnig í góðu sambandi við Asera. Mótmælt var á götum úti í Armeníu í gærkvöldi eftir að samningurinn var undirritaður en mörgum þar í landi finnst að verið sé að gefa héraðið upp á bátinn og undirselja það Aserum og Tyrkjum en í átökum síðustu vikna segjast þeir hafa náð til baka landi sem þeir töpuðu í átökunum á tíunda áratug síðustu aldar, þegar um þrjátíu þúsund manns létu lífið.