Fótbolti

Tíu eftirminnilegustu landsleikirnir á ferli Söru Bjarkar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir leikur sinn 134. landsleik þegar Ísland mætir Svíþjóð í undankeppni EM í kvöld.
Sara Björk Gunnarsdóttir leikur sinn 134. landsleik þegar Ísland mætir Svíþjóð í undankeppni EM í kvöld. vísir/vilhelm

Sara Björk Gunnarsdóttir slær leikjamet íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta þegar það mætir því sænska í Gautaborg í undankeppni EM í kvöld.

Sara leikur sinn 134. landsleik í kvöld. Hún jafnaði leikjamet Katrínar Jónsdóttur í fyrri leiknum gegn Svíum á Laugardalsvellinum 22. september síðastliðinn og slær metið í kvöld.

Landsleikirnir eiga eflaust eftir að verða mun fleiri en Sara er aðeins þrítug og hefur varla misst úr leik á þrettán ára ferli sínum með landsliðinu.

Í tilefni af þessum tímamótum er við hæfi að rifja upp tíu eftirminnilega leiki á landsliðsferli Söru.

Sara lék í næstefstu deild þegar hún var fyrst valin í íslenska A-landsliðið.getty/Arni Torfason

Fyrsti landsleikurinn (Slóvenía 1-2 Ísland 2007)

Sara var sextán ára leikmaður Hauka í næstefstu deild þegar hún var fyrst valin í íslenska landsliðið sumarið 2007. „Þjálfarinn minn hringdi í mig og óskaði mér til hamingju og þá fékk ég að vita að ég væri komin í landsliðshópinn. Ég var bara hissa og í sjokki en ánægð,“ sagði Sara í kvöldfréttum Stöðvar 2 þegar hún var valin í landsliðið í fyrsta sinn.

Hún lék sinn fyrsta landsleik þegar Ísland tapaði óvænt fyrir Slóveníu, 1-2, Dragograd í undankeppni EM 26. ágúst 2007. Hún kom inn á sem varamaður fyrir Katrínu Ómarsdóttur þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.

Klakaleikurinn (Ísland 3-0 Írland 2008)

Ísland tryggði sér í fyrsta sinn sæti á stórmóti með sigri á Írlandi á skautasvellinu í Laugardalnum 30. október 2008. Liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum í umspili um sæti á EM 2009 og Íslendingar voru því í góðri stöðu fyrir seinni leikinn á Laugardalsvelli. 

Aðstæður voru afleitar enda völlurinn nær frosinn og flugháll. En Íslendingum gekk betur að eiga við aðstæðurnar, unnu öruggan 3-0 sigur og tryggðu sér sæti á EM í Finnlandi 2009. Sara var langyngsti leikmaðurinn í íslenska byrjunarliðinu í þessum leik, aðeins átján ára.

Tvö mörk í sigri á Noregi (Noregur 1-3 Ísland 2009)

Sara hefur skorað 20 mörk fyrir íslenska landsliðið. Tvö þeirra komu í góðum 1-3 sigri á Noregi í riðlakeppninni á Algarve Cup í byrjun mars 2009. Norðmenn voru og eru með gríðarlega sterkt lið sem komst alla leið í undanúrslit á EM 2009. Ísland tapaði einmitt fyrir Noregi í öðrum leik sínum á Evrópumótinu, 1-0.

Fyrsti leikurinn sem fyrirliði (Skotland 1-1 Ísland 2012)

Sara var fyrirliði íslenska landsliðsins í fyrsta sinn í vináttulandsleik gegn Skotlandi 4. ágúst 2012 í fjarveru Katrínar Jónsdóttur sem missti af fyrsta landsleiknum í sex ár. Sara var aðeins 21 árs, tíu mánaða og sex daga þegar hún var fyrirliði og er sú næstyngsta sem hefur borið fyrirliðaband íslenska landsliðsins á eftir Erlu Rafnsdóttur.

Leikurinn gegn Skotum var tímamótaleikur að öðru leyti fyrir Söru en þetta var hennar fimmtugasti landsleikur. Sandra María Jessen kom Íslandi yfir á 75. mínútu í leiknum en Skotland jafnaði á lokamínútunni og lokatölur 1-1 jafntefli.

Sara í leiknum gegn Hollandi á EM 2013.epa/MIKAEL FRITZON

Fyrsti sigurinn á stórmóti (Holland 0-1 Ísland 2013)

Ísland tryggði sér sæti í átta liða úrslitum EM í Svíþjóð með 0-1 sigri á Hollandi í Växjö í lokaleik riðlakeppninnar 17. júlí 2013. Dagný Brynjarsdóttir skoraði markið sem tryggði íslenska liðinu sinn fyrsta, og til þessa dags eina, sigur á stórmóti með skalla á 30. mínútu. Sara var í byrjunarliði Íslands gegn Hollandi eins og hun hefur í öllum tíu leikjum íslenska kvennalandsliðsins á EM.

Bronsleikur gegn Svíum á Algarve (Ísland 2-1 Svíþjóð 2014)

Svíþjóð átti ekki í neinum vandræðum með að vinna Ísland í átta liða úrslitum á EM 2013, 4-0. Þegar liðin mættust aftur í leik um 3. sætið á Algarve mótinu 2014 unnu Íslendingar hins vegar 2-1 sigur. 

Sara kom íslenska liðinu á bragðið á 28. mínútu og þremur mínútum síðar tvöfaldaði Harpa Þorsteinsdóttir forskotið. Svíar minnkuðu muninn á lokamínútunni en það dugði ekki til og Íslendingar fengu bronsið sem er næstbesti árangur þeirra á Algarve mótinu.

Sara í hundraðasta landsleiknum.getty/Ricardo Nascimento

Hundraðasti leikurinn (Japan 2-0 Ísland 2017)

Sara lék sinn hundraðasta landsleik þegar Ísland tapaði fyrir Japan á Algarve mótinu 3. mars 2017. Hún bættist þar með í hundrað landsleikja klúbbinn þar sem fyrir voru Katrín Jónsdóttir, Þóra Björg Helgadóttir, Edda Garðarsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir og Dóra María Lárusdóttir. Sara er sú yngsta sem nær því að spila hundrað leiki fyrir íslenska landsliðið.

Tilfinningaþrungin stund gegn Færeyjum (Ísland 8-0 Færeyjar 2017)

Stórsigur á Færeyjum ætti kannski ekki að komast á listann yfir eftirminnilegustu landsleiki Söru en gerir það samt. Þetta var fyrsti leikur íslenska liðsins eftir vonbrigðin á EM 2017 þar sem Ísland tapaði öllum þremur leikjunum sínum.

Ísland vann 8-0 sigur á Færeyjum á Laugardalsvellinum 18. september 2017. Sara skoraði fjórða mark Íslendinga skömmu fyrir hálfleik og lýsir því sem eins konar kaþarsis augnabliki í ævisögu sinni, Óstöðvandi, sem kom út fyrir síðustu jól: „Þegar ég sá boltann í netinu var eins og einhverjar flóðgáttir opnuðust. Ég hljóp af stað og öskraði eins og villidýr en svo brast ég bara í grát. Ég réði ekkert við þessar tilfinningar. Ég var svo glöð yfir því að vera að stíga skref í rétta átt en samt var ég að burðast með svo mikil þyngsli á bakinu.“

Sara í baráttu við Alexöndru Popp, þáverandi samherja sinn hjá Wolfsburg.vísir/getty

Sigurinn á Þýskalandi (Þýskaland 2-3 Ísland 2017)

Íslendingar unnu einn sinn glæsilegasta sigur þegar þeir sigruðu ógnarsterka Þjóðverja í Wiesbaden í undankeppni HM 20. október 2017. Fyrir utan að vera Evrópu- og Ólympíumeistarar voru Þjóðverjar í 2. sæti styrkleikalista FIFA. Fyrir leikinn hafði íslenska kvennalandsliðið tapað öllum fjórtán leikjum sínum gegn Þýskalandi og ekki skorað gegn þeim í 30 ár. Þetta var jafnframt fyrsti sigur Íslands á sameiginlegu liði Þýskalands hjá bæði A-landsliðum karla og kvenna.

Dagný Brynjarsdóttir skoraði tvö mörk í leiknum í Þýskalandi og Elín Metta Jensen eitt. Sara lék allan leikinn og stóð fyrir sínu að vanda.

Sara í leiknum gegn Svíum í síðasta mánuði sem var einn hennar besti á landsliðsferlinum.vísir/vilhelm

Jafnaði metið með stæl (Ísland 1-1 Svíþjóð 2020)

Sara jafnaði leikjamet Katrínar gegn Svíum í undankeppni EM í síðasta mánuði. Ísland lenti undir á 34. mínútu en skömmu fyrir hálfleik jafnaði Sara. Markið var hins vegar dæmt af fyrir litlar sakir.

Íslenska liðið var sterkari aðilinn í seinni hálfleik og Elín Metta Jensen skoraði verðskuldað jöfnunarmark fyrir Ísland á 62. mínútu. Sara var valinn maður leiksins hjá Vísi og fékk níu í einkunn fyrir frammistöðu sína. „Góð í fyrri hálfleik, frábær í þeim seinni. Alvöru fyrirliðaframmistaða í tímamótaleiknum. Skoraði undir lok fyrri hálfleiks en markið var dæmt af. Færði sig framar í seinni hálfleik og dreif íslenska liðið áfram,“ sagði í umfjöllun Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×