Utanríkisráðuneyti Armeníu hefur sagt Armena reiðubúna til viðræðna um vopnahlé vegna átakanna við Asera um héraðið Nagorno-Karabakh.
Reuters segir frá þessu, en stjórnvöld í Rússlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum hafa þrýst á stríðandi fylkingar að leggja niður vopn. Aserar segjast hins vegar einungis ætla að hætta hernaðaraðgerðum þegar armenskar hersveitir hafi hörfað.
Átökin milli armenskra og aserskra hersveita hafa nú staðið í á sjötta dag og hafa nærri tvö hundruð manns fallið, þar af þrjátíu óbreyttir borgarar.
Rússar, Frakkar og Bandaríkjamenn hafa átt sæti í Minskhópnum svokallaða sem hafa haft það hlutverk að reyna að miðla málum í deilunni. Tyrkir, sem eru bandamenn Asera, hafa lagst gegn afskiptum ríkjanna í deilunni.
Nagorno-Karabakh er hérað innan landamæra Aserbaídsjan þar sem Armernar eru í meirihluta og hafa stjórnað í raun. Deilt hefur verið um héraðið allt frá því að Armenía og Aserbaídsjan lýstu yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum og hafa reglulega blossað upp átök á landamærunum. Átökin nú eru hins vegar þau mestu og mannskæðustu í áraraðir.
Armenar hafa sakað Tyrki um að senda sýrlenska málamiða til héraðsins til aðstoðar aserskum hersveitum, en þessu hafa Tyrkir hins vegar hafnað.