Hundar sem eru þjálfaðir til að greina kórónuveirusmit þefa nú af farþegum sem fara um Vantaa-flugvöll í Helsinki í tilraunaskyni. Ekki hefur verið sýnt fram á getu hundana til þess að þefa uppi smitað fólk með vísindalegum rannsóknum og eru þeir því notaðir samhliða hefðbundinni skimun.
Tíu leiðbeinendur með fimmtán hunda eru nú í þjálfun til að þefa uppi veiruna en einkarekinn dýraspítali fjármagnar tilraunaverkefnið.
Anna Hielm-Björkman, aðjúnkt við Háskólann í Helsinki og sérfræðingur í fylgdardýrum, segir Reuters-fréttastofunni að hundarnir geti numið sjúkdóminn allt að fimm dögum áður en sá smitaði finnur fyrir einkennum.
Farþegar sem bjóða sig fram til þess að taka þátt í tilrauninni nudda grisju við hálsinn á sér sem er sett í dós. Starfsmenn fara með dósina í annað herbergi þar sem hundarnir rýna í grisjuna með trýninu.
Timo Aronkyto, varaborgarstjóri Vantaa, segist sjá fyrir sér að í framtíðinni gætu sérþjálfaðir hundar farið um á milli farþega líkt og tollleitarhundar gera fyrir.