Kevin De Bruyne var í kvöld útnefndur besti leikmaður síðustu leiktíðar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, rétt áður en hann byrjaði leikinn við Ísland með Belgíu í Þjóðadeildinni.
De Bruyne átti frábæra leiktíð í liði Manchester City sem þó endaði í 2. sæti deildarinnar. Það eru leikmennirnir sjálfir í deildinni sem standa að valinu, sem fór fram seinna á árinu en ella enda lauk leiktíðinni ekki fyrr en í lok júlí vegna kórónuveirufaraldursins. Ný leiktíð hefst á laugardaginn.
Englandsmeistarar Liverpool áttu besta leikmann ársins leiktíðirnar tvær á undan þeirri síðustu, þegar Virgil Van Dijk og Mohamed Salah voru valdir.
„Þetta er mikill heiður, að vera valinn af starfsbræðrum sínum, keppinautum úr öðrum liðum sem maður er alltaf að spila gegn á vellinum. Það að þeir velji mann er stórkostlegt,“ er haft eftir De Bruyne á BBC um valið.
De Bruyne er að sjálfsögðu í liði ársins en í því eru jafnframt fimm fulltrúar meistara Liverpool. Trent Alexander-Arnold, sem átti magnað tímabil sem bakvörður Liverpool, var valinn besti ungi leikmaðurinn.
The @PFA Team of the Year
— Goal (@goal) September 8, 2020
What do you think? pic.twitter.com/VUeUrXHJJH