Fredensborg ICE ehf, dótturfélag hins norska Fredensborg AS, hefur keypt næstum tvo þriðju hluta í Heimavöllum, sem sérhæfir sig í útleigu íbúða. Eftir kaupin fer Fredensborg ICE með samtals 73,94 prósent hlutafjár í Heimavöllum og hefur í hyggju að gera yfirtökutilboð til annarra hluthafa.
Heimavellir áttu rúmlega 1600 íbúðir undir lok síðasta árs, en félagið hefur í hyggju að losa sig við rúmlega 400 íbúðir á árabilinu 2019 til 2021. Heimavellir hafa rekið íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Selfossi, í Hveragerði, Þorlákshöfn, Grindavík og Reykjanesbæ.
Fyrir viðskiptin var Fredensborg ICE stærsti hluthafinn í Heimavöllum og fór með rúmlega 10 prósent hlut. Síðastliðinn sólarhring hefur norska félagið bætt við sig 63 prósentum til viðbótar og greiddi næstum 11 milljarða króna fyrir. Meðal seljenda voru Sjóvá, Stálskip, Snæból og Gana.
Fredensborg ICE keypti hlutina, ríflega 7 milljarða talsins, á genginu 1,5. Ætlunin er að greiða sama verð fyrir aðra hluti í félaginu og leggja fram yfirtökutilboðið innan fjögurra vikna. Að því loknu hyggst Fredensborg ICE afskrá Heimavelli af aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland.
Í tilkynningu Heimavalla til Kauphallarinnar um vendingarnar er Fredensborg ICE kynnt nánar til leiks:
Fredensborg ICE ehf. er dótturfélag Fredensborg AS sem er skráð í Noregi, endanlegur eigandi Fredensborg AS er Ivar Erik Tollefsen. Fredensborg AS á meirihluta í íbúðaleigufyrirtækinu Heimstaden sem á tugþúsundir leiguíbúðir á Norðurlöndunum og á meginlandi Evrópu.

