Fótbolti

Mark frá Zlatan dugði Milan ekki í afar óvæntu tapi

Sindri Sverrisson skrifar
Genoa fagnaði sigri gegn AC Milan í dag.
Genoa fagnaði sigri gegn AC Milan í dag. vísir/getty

AC Milan missti af mikilvægum stigum þegar liðið tapaði 2-1 á heimavelli gegn Genoa sem þar með komst upp úr fallsæti í ítölsku A-deildinni í fótbolta.

Genoa komst í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum frá Goran Pandev og Francesco Cassata. Zlatan Ibrahimovic klóraði í bakkann fyrir heimamenn á 77. mínútu.

Milan er því með 36 stig í 7. sæti, þremur stigum á eftir Napoli, en Genoa kom sér upp í 17. sæti með 25 stig og betri markatölu en Lecce sem er komið í fallsæti.

Þrátt fyrir að íþróttamálaráðherra Ítalíu hafi þrýst á að ítalskur fótbolti verði settur á ís næstu vikurnar vegna kórónuveirunnar þá er spilað í A-deildinni í dag. Óvíst er hvað gerist á morgun og boðað hefur verið til neyðarfundar á þriðjudag til að fara yfir stöðuna og svo gæti farið að þá verði gert hlé á deildinni út þennan mánuð.

Leikmannasamtökin á Ítalíu vilja að hlé verði gert á fótbolta í landinu og munu vera að undirbúa verkfallsaðgerðir ef til þarf.

SPAL vann Parma 1-0 á útivelli í hádeginu í leik sem var frestað um stutta stund vegna óvissu sem skapaðist um hvort leikið yrði í dag. Sampdoria vann 2-1 sigur á Hellas Verona.

Í kvöld mætast Juventus og Inter í stórleik sem gæti ráðið miklu í toppbaráttu deildarinnar, en liðin eru í 2. og 3. sæti.


Tengdar fréttir

Fá Birkir og Emil að fljúga? | Rúmenar í svipaðri stöðu

Eftir að strangt ferðabann var sett á á Norður-Ítalíu í nótt er alls kostar óvíst hvort íslenskir og rúmenskir leikmenn sem þar spila fótbolta komast í EM-umspilsleikinn sem enn stendur til að fari fram á Laugardalsvelli 26. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×