Handbolti

Snorri segir að Halden hafi „klárlega verið óskamótherjinn“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Snorri á hliðarlínunni í gær.
Snorri á hliðarlínunni í gær. vísir/bára

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var ánægður með að dragast gegn norska liðinu Halden í 8-liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu. Dregið var í gær.

Valur sló út Beykoz frá Tyrklandi um síðustu helgi en í fyrstu umferðinni slógu þeir út Bregenz frá Austurríki.

Snorri Steinn var ánægður með sigurinn í Tyrklandi og segir að þetta hafi verið erfiðara en hann hafi búist við.

„Ég veit ekki hversu stórt þetta er en þetta voru bara gríðarlega erfiðir leikir. Við spiluðum vel í báðum leikjunum og unnum þá báða með einu marki,“ sagði Snorri eftir sigur Vals á Fjölni í gær.

„Tyrkirnir voru bara betri en ég átti von á. Þeir voru í betra formi og betur þjálfaðir en ég átti von á. Auðvitað átti ég von á að þetta yrði erfitt en að það þyrfti þessa frammistöðu til var ekki alveg eitthvað sem ég reiknaði með.“

„Þetta var bara ógeðslega erfitt og ég var mjög ánægður að hafa klárað þetta.“

Valsmenn drógust svo gegn norska liðinu Halden í næstu umferð og Snorri var himinlifandi með það enda gátu þeir þurft að ferðast mun lengri vegalengd.

„Klárlega með voru þeir óska mótherjar, hvað fjarlægð varðar en sérstaklega fjárhagslega. Strákarnir hafa verið að safna fyrir þessu sjálfir þannig að þetta er jákvætt, án þess að ég hafi fengið einhverja verðhugmynd í þetta verkefni.“

Fyrri leikur Vals og Halden fer fram 21. eða 22. mars og sá síðari 28. eða 29. mars.

„Enn aftur þá er þetta mjög verðugt verkefni. Ég geri ráð fyrir að öll þessi lið sem eru eftir séu lið sem geta farið alla leið. Ég er ekki byrjaður að skoða þessa Norðmenn en það er gaman að sjá hvar við stöndum gagnvart norsku liði,“ sagði Snorri.


Tengdar fréttir

Valsmenn höndluðu mikla spennu í Tyrklandi

Valsmenn eru komnir áfram í 8-liða úrslit Áskorendakeppni karla í handbolta eftir að hafa slegið Beykoz út í Tyrklandi með tveimur eins marks sigrum.

Valsmenn fara til Noregs

Valur mætir Halden frá Noregi í 8-liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×