Handbolti

Aron tekur við Haukum í þriðja sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron er öllum hnútum kunnugur á Ásvöllum.
Aron er öllum hnútum kunnugur á Ásvöllum. vísir/bára

Aron Kristjánsson tekur við karlaliði Hauka í handbolta í vor. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Haukum.

Aron tekur við þjálfarastarfinu hjá Haukum af Gunnari Magnússyni sem hættir hjá félaginu eftir tímabilið og tekur við Aftureldingu.

Þetta er í þriðja sinn sem Aron tekur við Haukum. Hann þjálfaði Hauka á árunum 2007-10 og gerði liðið að Íslandsmeisturum þrjú ár í röð. Haukar urðu einnig tvisvar deildarmeistarar og einu sinni bikarmeistarar á þessum tíma.

Aron tók aftur við Haukum 2011 og stýrði liðinu í tvö ár. Haukar urðu tvisvar deildarmeistarar og einu sinni bikarmeistarar á þeim tíma auk þess sem liðið tapaði í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn fyrir Fram 2013.

Aron var aðstoðarþjálfari Gunnars hjá Haukum seinni hluta síðasta tímabils. Hann er einnig þjálfari karlalandsliðs Barein sem er á leið á Ólympíuleikana í Tókýó í sumar.

Aron þjálfaði íslenska landsliðið á árunum 2012-16, auk þess sem hann hefur þjálfað í Danmörku og Þýskalandi.

Haukar hafa tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum og eru aðeins með eins stigs forskot á toppi Olís-deildar karla. Næsti leikur Hauka er gegn ÍBV á útivelli eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×