Atvinnulíf

Að halda sér vakandi á löngum eða leiðinlegum fundum

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það kannast margir við að finna til syfju á löngum fundum eða fundum sem fólki finnst leiðinlegt á.
Það kannast margir við að finna til syfju á löngum fundum eða fundum sem fólki finnst leiðinlegt á. Vísir/Getty

Það hafa allir lent í þessu einhvern tímann: Okkur syfjar á fundi og við erum í vandræðum með að halda okkur vakandi. Innan um góða vini getur þetta verið fyndið.  Á vinnufundi er þetta hins vegar frekar vandræðalegt.

Mögulega er þetta þó algengari en mörgum grunar. Í rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum og Everyday Health sagði frá kom í ljós að 40% fólks sofnar óafvitandi einhvern tímann yfir daginn.

Sérfræðingar segja niðurstöðurnar þó fyrst og fremst staðfestingu á að fólk er ekki að fá nægan svefn. Svipuð umræða hefur verið hér á landi.

Sjá einnig: Ertu að fá nægan svefn?

Sumir heimskunnir menn eru reyndar þekktir fyrir að sofna á fundum. Í umfjöllun BBC eru nokkrir tilgreindir og þar á meðal forsetaframbjóðandinn Joe Biden.  En fyrst er að skoða hvaða aðstæður eru líklegastar til að orsaka syfjuna:

  • Okkur er heitt og við vorum að borða
  • Of mikið álag
  • Við erum vansvefta
Mættu stjórnendur og fyrirlesarar kannski velta því fyrir sér hvað veldur því að fundargestir sofna á fundum hjá þeim?Vísir/Getty

Algeng ráð til að halda sér vakandi á fundum eru:

1.  Taktu þátt í fundinum.

Þetta er hægt með því að spyrja eða taka þátt í umræðum. Fyrir syfjað fólk er mælt með því að rétta upp hendi á fyrstu þremur mínútunum ef hægt er.  Þannig verður fólk oftast þáttakendur í fundinum allt til enda.

2.  Hjálpaðu öðrum að fá orðið.

Sumir vilja ekki tala sjálfir en ein leið til að halda sér vakandi á fundum er að fylgjast með öðrum fundargestum og hjálpa þeim sem mögulega virðist ekki komast að. Þetta er hægt með því að láta vita að viðkomandi vilji fá orðið eða eigi eftir að segja eitthvað.

3.  Augnsamband.

Við erum auðvitað ekki að tala um að fólk stari á einhvern, en það getur hjálpað syfjuðu fólki að halda sér vakandi á fundum með því að reyna að ná augnsambandi við aðra fundarmenn á meðan á fundinum stendur.

4.  Vertu með eitthvað í höndunum.

Sumir grípa í síman og fara á samfélagsmiðla. Það vissulega heldur fólki vakandi en við þetta hverfur athyglin á því sem verið er að segja eða ræða um. Það er hins vegar góð leið að halda sér vakandi með því að vera með eitthvað í höndunum. Algeng dæmi eru til dæmis þegar fólk er að fitla við teygju eða bréfaklemmu. Sumum finnst gott að vera með penna og blað og krota á meðan hlustað er.

5.  Fáðu þér vatnsopa.

Vatnið hreinlega hressir alltaf þannig að það að fá sér vatnsopa virkar. Takið eftir því að á ráðstefnum og málþingum er oftast boðið upp á vatn í könnum.  Tilviljun? Nei.

Ef allt þrýtur og þú finnur svefninn hreinlega sækja fast að þér er ekkert nema að reyna að afsaka sig pent, skreppa örstutt á salernið og grípa kannski kaffibolla með þér áður en farið er aftur inn á fund.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×