Hvít-rússneski Nóbelsverðlaunahafinn Svetlana Alexievitsj hefur biðlað til Aleksandr Lúkasjenkó að láta af embætti forseta þegar í stað til að koma megi í veg fyrir að borgarastyrjöld brjótist út í landinu.
„Segðu af þér áður en það er of seint, áður en þú kastar fólkinu niður í skelfilegt hyldýpi, í hyldýpi borgarastyrjaldar,“ sagði Alexievitsj í viðtali á bandarísku útvarpsstöðinni Radio Liberty.
Blaðakonan og rithöfundurinn Alexievitsj hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2015 fyrir verk sín um ofsóknir og tjáningar fólks í Sovétríkjunum. Hún hefur verið áberandi í gagnrýni sinni á Lúkasjenkó sem lengi hefur verið kallaður síðasti einræðisherrann í Evrópu.
Alexievitsj sakar nú Lúkasjenkó um að hafa lýst yfir stríði gegn þjóð sinni, en mikil mótmæli hafa verið í landinu frá því að Lúkasjenkó var sagður hafa hlotið um 80 prósent atkvæða í forsetakosningunum sem fram fóru um síðustu helgi. Þúsundir mótmælenda hafa verið handteknir og þá hafa tveir látið lífið í átökum.
„Þú vilt bara hafa völd og krafa þín mun leiða til blóðsúthellinga,“ sagði Alexievitsj.
Framkvæmd forsetakosninganna hefur verið harðlega gagnrýnd þar sem ásakanir eru uppi um víðtækt kosningasvindl.