Varamaðurinn Eric Maxim Choupo-Moting tryggði Paris Saint-Germain sigur á Atalanta, 1-2, með marki á þriðju mínútu í uppbótartíma í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Atalanta var grátlega nærri því að komast í undanúrslit á sínu fyrsta tímabili í Meistaradeildinni. Mario Pasalic kom ítalska liðinu í 1-0 á 26. mínútu og þannig var staðan fram á lokamínútuna.
Þá jafnaði Marquinhos fyrir PSG eftir sendingu frá Neymar. Frönsku meistararnir voru ekki hættir og á 93. mínútu kom sigurmarkið.
Neymar sendi þá boltann á Kylian Mbappé sem gaf fyrir á Choupo-Moting sem skoraði af stuttu færi.
Ótrúleg endurkoma hjá PSG sem er komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn í aldarfjórðung.
Mörkin úr leik Atalanta og PSG má sjá hér fyrir neðan.
Sýnt verður beint frá öllum leikjunum sem eftir eru í Meistaradeild Evrópu á Stöð 2 Sport. Keppni lýkur með úrslitaleiknum í Lissabon 23. ágúst. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.