Sjálfboðaliðar á Máritíus gera nú allt til að reyna að hefta útbreiðslu olíu í sjónum eftir stórfelldan leka úr japönsku flutningaskipi sem strandaði undan strönd landsins í síðasta mánuði.
Skipið, MV Wakashio, strandaði á kóralrifi í Indlandshafi þann 25. júlí síðastliðinn og síðan hafa mörg tonn af olíu lekið úr skipinu.
Stórbritin kóralrif er að finna undan ströndum Máritíusar og ferðast margir til landsins gagngert til að kafa, en ferðaþjónusta er ein mikilvægasta atvinnugrein landsins.
Margir hafa lýst yfir miklum áhyggjum af þeim áhrifum sem olíulekinn kann að hafa á vistkerfið á svæðinu.

Sjálfboðaliðar vinna hörðum höndum að því að hreinsa strandirnar þar sem olíunni hefur skolað á land og hafa þeir meðan annars komið fyrir stráum og öðrum gróðri í sjónum í þeim tilgangi að það drekki í sig olíuna.
Forstjóri japanska skipafélagsins Mitsui OSK Lines, sem gerir út MV Wakashio, baðst í morgun afsökunar á slysinu.
Áætlað er að þúsund tonn af olíu hið minnsta hafi lekið úr skipinu. Búið er að ná 500 tonnum af olíu úr skipinu en áætlað er að um 2.500 tonn sé þar enn að finna.