HB Heildverslun hefur hætt sölu á dúkku vegna gallaðs renniláss. Dúkkan er framleidd af þýska leikfangafyrirtækinu Happy People, ætluð börnum sem eru eldri en tvegggja ára og segir Neytendastofa að hún hafi verið seld í verslunum frá árinu 2016.
Eins og myndin hér að ofan ber með sér er dúkkan í bleikum og hvítum fatnaði. Hún er jafnframt búin rennilás sem er sagður eiga það til að losna. Það geti valdið hættu enda séu smáir hlutir hættulegir ungum börnum.
Neytendastofa hvetur fólk sem á svona dúkku til að athuga hvort umræddur rennilás sé í lagi. Ef hann er það ekki og losnar ættu eigendur dúkkanna að setja sig í samband við fyrrnefnda heildverslun.