Viðskipti innlent

Tómas Örn úr Seðlabankanum til kjaratölfræðinefndar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tómas Örn Kristinsson
Tómas Örn Kristinsson ríkissáttasemjari

Tómas Örn Kristinsson, töl- og tölvunarfræðingur, hóf störf fyrir kjaratölfræðinefnd í aprílbyrjun. Á vef ríkissáttasemjara, þar sem greint er frá ráðningu Tómasar, segir að starf hans muni m.a. felast í greiningum og skýrsluskrifum, og að fyrsta útgáfa nefndarinnar verði í september 2020 – skömmu fyrir endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Kjaratölfræðinefnd er ætlað að „stuðla að sameiginlegum skilningi aðila vinnumarkaðarins á eðli og þróun þeirra hagtalna sem skipta mestu máli við gerð kjarasamninga,“ og tók til starfa undir lok síðasta árs. Hún er skipuð fulltrúum heildarsamtaka á vinnumarkaði auk fulltrúum frá forsætisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og Hagstofu Íslands.

Nýskipaður ríkissáttasemjari, Aðalsteinn Leifsson, segir stofnun nefndarinnar mikið framfaraskref og að vonir séu bundnar við að „hún muni gefa góðan grunn fyrir undirbúning og umræðu við gerð kjarasamninga.“

Edda Rós Karlsdóttir, formaður nefndarinnar, segir það mikinn feng fyrir nefndina að fá Tómas til starfa. Reynsla hans og menntun muni koma að góðum notum.

Í fyrrnefndri vistaskiptatilkynningu er drepið á umræddri reynslu og menntun Tómasar:

Tómas Örn lauk B.S. gráðu í tölvunarfræðum frá Háskóla Íslands 1986, MBA prófi frá Rockford University 1988 og meistaragráðu í tölfræði og upplýsingastjórnun frá Nova Universidade í Lissabon 2017.

Tómas Örn starfaði hjá Seðlabanka Íslands frá árinu 1999 til 2020. Þar á undan var hann ritstjóri Vísbendingar í tvö og hálft ár, hjá Verðbréfaþingi Íslands í 5 ár og hjá Fjárfestingarfélagi Íslands í 3 ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×