Allir sem koma til Bretlands með flugi munu þurfa að fara í fjórtán daga sóttkví, nema þeir farþegar sem koma frá Írlandi. Þetta hefur BBC eftir heimildarmönnum sínum innan ríkisstjórnarinnar og flugfélögum þar í landi.
Gert er ráð fyrir því að þessar breytingar taki gildi í lok mánaðar til þess að sporna gegn frekari útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi. Þannig munu ferðamenn mögulega þurfa að gefa upp heimilisfang við komuna til landsins og séu þeir að koma frá öðrum stöðum en Írlandi munu þeir þurfa að fara í sóttkví.
Forsvarsmenn flugvalla í Bretlandi hafa verið á móti því að ferðamenn verði sendir í sóttkví og segja það geta haft alvarlega afleiðingar í för með sér, ekki einungis fyrir flugiðnaðinn heldur fyrir efnahagskerfi landsins í heild.
Ekki er ljóst hversu lengi þessi áætlun verður í gildi en samtök breskra flugfélaga hafa gefið það út að útfærslan verði ljós þegar ríkisstjórnin hefur kynnt áformin. Búist er við því að flugmálaráðherrann Kelly Tolhurst kynni hugmyndirnar fyrir forsvarsmönnum flugfélaganna á morgun.