Fótbolti

Kóresk goðsögn á fimmtugsaldri skoraði fyrsta markið eftir COVID-19

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lee Dong-gook fagnaði sigurmarki sínu með Jeonbuk Hyundai Motors með því að þakka heilbrigðsstarfsfólki fyrir á táknmáli.
Lee Dong-gook fagnaði sigurmarki sínu með Jeonbuk Hyundai Motors með því að þakka heilbrigðsstarfsfólki fyrir á táknmáli. EPA-EFE/JEON HEON-KYUN

Suður-Kórea varð í dag fyrsta landið sem byrjaði að spila á nýjan leik eftir að öllum leikjum í deildarkeppni landsins hafði verið frestað vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Fyrsta markið eftir COVID-19 skoraði Suður-Kóreumaðurinn Lee Dong-gook fyrir lið Jeonbuk Hyundai Motors.

Lee Dong-gook hélt upp á 41 árs afmælið sitt í lok síðasta mánaðar en hann spilaði bæði í Þýskalandi (Werder Bremen) og Englandi (Middlesbrough) fyrir meira en áratug síðan.

Lee Dong-gook kom inn á sem varamaður í leiknum og skoraði sigurmarkið en Jeonbuk Hyundai Motors vann Suwon Bluewings 1-0.

Markið kom með skalla á nærstönginni eftir hornspyrnu frá vinstri en markið má sjá hér fyrir neðan.

Lee Dong-gook fagnaði markinu með því að þakka heilbrigðisstarfsfólki fyrir á táknmáli.

Lee Dong-gook spilaði 105 landsleiki og skoraði í þeim 33 mörk fyrir Suður-Kóreu á árunum 1998 til 2017. Hann var samt ekki valinn í landsliðshópinn þegar Suður-Kóreubúar héldu HM með Japönum árið 2002.

Lee Dong-gook var kallaður „Lati snillingurinn“ og hollenski þjálfarinn Guus Hiddink lagði mikið upp úr vinnusemi hjá leikmönnum landsliðsins.

Lee Dong-gook tók því mjög illa að vera ekki valinn í hópinn hjá Guus Hiddink og hefur seinna sagt frá því að hann horfði ekki á einn leik í þessu mikla ævintýri þar sem suður-kóreska liðið komst alla leið í undanúrslitin.

Lee Dong-gook kom til Jeonbuk Hyundai Motors árið 2009 og hefur spilað með liðinu síðan. Hann skoraði sitt tvö hundraðasta mark fyrir félagið á síðasta ári.

Dong-gook skoraði 9 mörk í 33 leikjum á síðustu leiktíð og vann þá sinn sjöunda meistaratitil með Jeonbuk Hyundai Motors.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×