Umfjöllun og viðtöl: HK - Haukar 26-28 | Haukar með fjögurra stiga forskot á toppnum Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 30. nóvember 2019 20:15 Heimir Óli var öflugur, sérstaklega í fyrri hálfleik. vísir/bára Haukar náðu fjögurra stiga forskoti á toppi Olís-deildar karla með sigri á botnliði HK í Kórnum í kvöld. Lokatölur 26-28, gestunum úr Hafnarfirði í vil. Haukar eru ósigraðir í vetur, hafa unnið níu leiki og gert þrjú jafntefli. HK-ingar eru hins vegar stigalausir á botni deildarinnar. Líkt og í fyrri leiknum gegn Haukum byrjaði HK vel. Vörnin var grimm og Davíð Svansson varði vel í markinu. Garðar Svansson kom HK yfir, 6-5, á 14. mínútu. Þetta var í síðasta sinn sem HK-ingar voru yfir í leiknum. Haukar skoruðu þrjú mörk í röð og náðu góðu taki á leiknum. HK-ingar fóru framarlega í vörninni og línan var nánast alltaf opin í fyrri hálfleik. Haukar dældu boltanum inn á Vigni Svavarsson og Heimi Óla Heimisson sem skoruðu að vild. HK átti í gríðarlegum vandræðum í sókninni seinni hluta fyrri hálfleiks. Haukar spiluðu sterka vörn og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 10-14, þrátt fyrir að hafa oft spilað betur. Haukar skoruðu fyrstu þrjú mörkin í seinni hálfleik og náðu sjö marka forystu, 10-17. Elías Már Halldórsson, þjálfari HK, tók þá leikhlé og setti aukamann inn á í sóknina. Það gaf mjög góða raun því eftir að hafa verið í miklum vandræðum í sókninni fóru HK-ingar allt í einu að opna Haukavörnina hvað eftir annað. HK spilaði góðan sóknarleik og nálgaðist Hauka hægt og sígandi. Þeir minnkuðu muninn í tvö mörk, 23-25, en Haukar svöruðu með tveimur mörkum. Andri Sigmarsson Scheving vaknaði líka undir lokin og varði þrjú dauðafæri á síðustu fimm mínútum. Á endanum munaði tveimur mörkum á liðunum, 26-28.Jóhann Birgir skoraði sjö mörk fyrir HK.vísir/báraAf hverju unnu Haukar? Haukar fóru rólega af stað, voru slakir síðustu 20 mínúturnar í seinni hálfleik en gerðu nóg til að vinna botnliðið. HK-ingar spiluðu vel tvo þriðju af leiknum en það þarf meira til gegn toppliðinu. Elías hlýtur samt að vera ánægður með hvernig sóknarleikurinn sjö á sex gekk og vörnina á löngum köflum.Hverjir stóðu upp úr? Vignir og Heimir Óli léku lausum hala í fyrri hálfleik og skoruðu grimmt. Þá varði Grétar Ari Guðjónsson vel í fyrri hálfleik og Andri var drjúgur undir lokin. Jóhann Birgir Ingvarsson stóð upp úr í liði heimamanna. Hann skoraði sjö mörk úr aðeins níu skotum.Hvað gekk illa? Eins og svo oft í vetur gerðu HK-ingar ótrúlega einföld og klaufaleg mistök í sókninni. Vörnin var fín á köflum en heimamenn réðu illa með línumenn gestanna í fyrri hálfleik. Þeir bökkuðu aftar í seinni hálfleik og lokuðu þá betur á línuspil Hauka. Hægri vængurinn var ekki nógu öflugur hjá HK í kvöld. Pétur Árni Hauksson var slakur eins og í alltof mörgum leikjum í vetur og Þorgeir Bjarki Davíðsson brenndi af fjórum dauðafærum úr hægra horninu.Hvað gerist næst? Eftir viku fá Haukar KA í heimsókn. Degi síðar sækja HK-ingar Fjölnismenn heim í nýliðaslag í Dalhúsum.Elías kvaðst stoltur af sínum mönnum eftir tapið fyrir toppliði Hauka.vísir/báraElías Már: Sé meira eftir því að hafa ekki bakkað fyrr í vörninni Þrátt fyrir tap fyrir Haukum í kvöld var Elías Már Halldórsson, þjálfari HK, sáttur með frammistöðu sinna manna á löngum köflum í leiknum. „Við áttum tvo mjög góða kafla. Við byrjuðum vel en duttum svo niður. Byrjunin á seinni hálfleik var ekki góð en við komum til baka og sýndum karakter. Þetta var leikur allan tímann. Það var margt mjög jákvætt í okkar leik,“ sagði Elías. Eftir slæma byrjun á seinni hálfleik bætti Elías aukamanni við sóknina sem lukkaðist vel. En hefði hann átt að breyta fyrr í leiknum og spila með sjöunda sóknarmanninn? „Já og nei. Ég er með svo fáa leikmenn, bara tvo línumenn, og maður þarf líka að hugsa um að menn hafi orku til að klára leikina,“ sagði Elías. „Ég sé meira eftir því að hafa ekki bakkað fyrr í vörninni í seinni hálfleik. Við lentum í vandræðum með Vigni í 3-2-1 vörninni. Strákarnir voru ótrúlega flottir. Bjarki Finnbogason kom frábærlega inn. Hann hefur lítið spilað að undanförnu en nýtti tækifærið sitt vel.“ HK minnkaði muninn í tvö mörk á lokakaflanum og setti verulega pressu á Hauka. „Við höfum átt möguleika í fullt af leikjum. Við spiluðum við eina taplausa lið deildarinnar í dag og á löngum köflum leit þetta ekki út fyrir að vera leikur efsta og neðsta liðsins,“ sagði Elías. „Ég er stoltur af mínu liði og mér fannst ég sjá bætingu á leik þess. Það er það sem þetta snýst um. Við verðum að bæta okkur og ef það gerist veit ég að fyrsti sigurinn kemur fljótlega í hús.“Gunnar og strákarnir hans eru í góðum málum á toppi Olís-deildarinnar.vísir/báraGunnar: Frammistaðan ekkert til að hrópa húrra fyrir „Ég vil hrósa HK-liðinu. Þeir skiptu ört um varnir og gerðu okkur erfitt fyrir. Svo útfærðu þeir sóknarleikinn sinn í seinni hálfleik mjög vel. Þetta var erfitt í kvöld en stigin tvö eru góð. Þau telja jafn mikið og önnur stig,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, eftir sigurinn á HK í Kórnum. Haukar spiluðu sterka vörn seinni hluta fyrri hálfleiks og í byrjun þess seinni. HK-ingar byrjuðu hins vegar að opna hana eftir að þeir bættu aukamanni við sóknina. Gunnar segir að þetta herbragð HK hafi ekki komið sér á óvart. „Við vorum undirbúnir fyrir þetta en þeir gerðu þetta ótrúlega vel. Þeir voru agaðir og gerðu fá mistök; biðu eftir því að við hlupum út úr stöðum og refsuðu okkur alltaf. Við áttum í basli með þá,“ sagði Gunnar. Hann var ekkert sérstaklega ánægður með frammistöðu Hauka í kvöld. „Ég er sáttur við að klára leikinn og ná í stigin tvö sem í boði voru. En frammistaðan var ekkert til að hrópa húrra fyrir,“ sagði Gunnar. Þrátt fyrir að hafa ekki spilað af fullum krafti í kvöld hefur Gunnar ekki áhyggjur af sínu liði. „Við vorum komnir 6-7 mörkum yfir og slökuðum aðeins á. Um leið og þú gerir það gegn HK refsa þeir þér. Þeir komu til baka og gerðu okkur erfitt fyrir.“ Olís-deild karla
Haukar náðu fjögurra stiga forskoti á toppi Olís-deildar karla með sigri á botnliði HK í Kórnum í kvöld. Lokatölur 26-28, gestunum úr Hafnarfirði í vil. Haukar eru ósigraðir í vetur, hafa unnið níu leiki og gert þrjú jafntefli. HK-ingar eru hins vegar stigalausir á botni deildarinnar. Líkt og í fyrri leiknum gegn Haukum byrjaði HK vel. Vörnin var grimm og Davíð Svansson varði vel í markinu. Garðar Svansson kom HK yfir, 6-5, á 14. mínútu. Þetta var í síðasta sinn sem HK-ingar voru yfir í leiknum. Haukar skoruðu þrjú mörk í röð og náðu góðu taki á leiknum. HK-ingar fóru framarlega í vörninni og línan var nánast alltaf opin í fyrri hálfleik. Haukar dældu boltanum inn á Vigni Svavarsson og Heimi Óla Heimisson sem skoruðu að vild. HK átti í gríðarlegum vandræðum í sókninni seinni hluta fyrri hálfleiks. Haukar spiluðu sterka vörn og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 10-14, þrátt fyrir að hafa oft spilað betur. Haukar skoruðu fyrstu þrjú mörkin í seinni hálfleik og náðu sjö marka forystu, 10-17. Elías Már Halldórsson, þjálfari HK, tók þá leikhlé og setti aukamann inn á í sóknina. Það gaf mjög góða raun því eftir að hafa verið í miklum vandræðum í sókninni fóru HK-ingar allt í einu að opna Haukavörnina hvað eftir annað. HK spilaði góðan sóknarleik og nálgaðist Hauka hægt og sígandi. Þeir minnkuðu muninn í tvö mörk, 23-25, en Haukar svöruðu með tveimur mörkum. Andri Sigmarsson Scheving vaknaði líka undir lokin og varði þrjú dauðafæri á síðustu fimm mínútum. Á endanum munaði tveimur mörkum á liðunum, 26-28.Jóhann Birgir skoraði sjö mörk fyrir HK.vísir/báraAf hverju unnu Haukar? Haukar fóru rólega af stað, voru slakir síðustu 20 mínúturnar í seinni hálfleik en gerðu nóg til að vinna botnliðið. HK-ingar spiluðu vel tvo þriðju af leiknum en það þarf meira til gegn toppliðinu. Elías hlýtur samt að vera ánægður með hvernig sóknarleikurinn sjö á sex gekk og vörnina á löngum köflum.Hverjir stóðu upp úr? Vignir og Heimir Óli léku lausum hala í fyrri hálfleik og skoruðu grimmt. Þá varði Grétar Ari Guðjónsson vel í fyrri hálfleik og Andri var drjúgur undir lokin. Jóhann Birgir Ingvarsson stóð upp úr í liði heimamanna. Hann skoraði sjö mörk úr aðeins níu skotum.Hvað gekk illa? Eins og svo oft í vetur gerðu HK-ingar ótrúlega einföld og klaufaleg mistök í sókninni. Vörnin var fín á köflum en heimamenn réðu illa með línumenn gestanna í fyrri hálfleik. Þeir bökkuðu aftar í seinni hálfleik og lokuðu þá betur á línuspil Hauka. Hægri vængurinn var ekki nógu öflugur hjá HK í kvöld. Pétur Árni Hauksson var slakur eins og í alltof mörgum leikjum í vetur og Þorgeir Bjarki Davíðsson brenndi af fjórum dauðafærum úr hægra horninu.Hvað gerist næst? Eftir viku fá Haukar KA í heimsókn. Degi síðar sækja HK-ingar Fjölnismenn heim í nýliðaslag í Dalhúsum.Elías kvaðst stoltur af sínum mönnum eftir tapið fyrir toppliði Hauka.vísir/báraElías Már: Sé meira eftir því að hafa ekki bakkað fyrr í vörninni Þrátt fyrir tap fyrir Haukum í kvöld var Elías Már Halldórsson, þjálfari HK, sáttur með frammistöðu sinna manna á löngum köflum í leiknum. „Við áttum tvo mjög góða kafla. Við byrjuðum vel en duttum svo niður. Byrjunin á seinni hálfleik var ekki góð en við komum til baka og sýndum karakter. Þetta var leikur allan tímann. Það var margt mjög jákvætt í okkar leik,“ sagði Elías. Eftir slæma byrjun á seinni hálfleik bætti Elías aukamanni við sóknina sem lukkaðist vel. En hefði hann átt að breyta fyrr í leiknum og spila með sjöunda sóknarmanninn? „Já og nei. Ég er með svo fáa leikmenn, bara tvo línumenn, og maður þarf líka að hugsa um að menn hafi orku til að klára leikina,“ sagði Elías. „Ég sé meira eftir því að hafa ekki bakkað fyrr í vörninni í seinni hálfleik. Við lentum í vandræðum með Vigni í 3-2-1 vörninni. Strákarnir voru ótrúlega flottir. Bjarki Finnbogason kom frábærlega inn. Hann hefur lítið spilað að undanförnu en nýtti tækifærið sitt vel.“ HK minnkaði muninn í tvö mörk á lokakaflanum og setti verulega pressu á Hauka. „Við höfum átt möguleika í fullt af leikjum. Við spiluðum við eina taplausa lið deildarinnar í dag og á löngum köflum leit þetta ekki út fyrir að vera leikur efsta og neðsta liðsins,“ sagði Elías. „Ég er stoltur af mínu liði og mér fannst ég sjá bætingu á leik þess. Það er það sem þetta snýst um. Við verðum að bæta okkur og ef það gerist veit ég að fyrsti sigurinn kemur fljótlega í hús.“Gunnar og strákarnir hans eru í góðum málum á toppi Olís-deildarinnar.vísir/báraGunnar: Frammistaðan ekkert til að hrópa húrra fyrir „Ég vil hrósa HK-liðinu. Þeir skiptu ört um varnir og gerðu okkur erfitt fyrir. Svo útfærðu þeir sóknarleikinn sinn í seinni hálfleik mjög vel. Þetta var erfitt í kvöld en stigin tvö eru góð. Þau telja jafn mikið og önnur stig,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, eftir sigurinn á HK í Kórnum. Haukar spiluðu sterka vörn seinni hluta fyrri hálfleiks og í byrjun þess seinni. HK-ingar byrjuðu hins vegar að opna hana eftir að þeir bættu aukamanni við sóknina. Gunnar segir að þetta herbragð HK hafi ekki komið sér á óvart. „Við vorum undirbúnir fyrir þetta en þeir gerðu þetta ótrúlega vel. Þeir voru agaðir og gerðu fá mistök; biðu eftir því að við hlupum út úr stöðum og refsuðu okkur alltaf. Við áttum í basli með þá,“ sagði Gunnar. Hann var ekkert sérstaklega ánægður með frammistöðu Hauka í kvöld. „Ég er sáttur við að klára leikinn og ná í stigin tvö sem í boði voru. En frammistaðan var ekkert til að hrópa húrra fyrir,“ sagði Gunnar. Þrátt fyrir að hafa ekki spilað af fullum krafti í kvöld hefur Gunnar ekki áhyggjur af sínu liði. „Við vorum komnir 6-7 mörkum yfir og slökuðum aðeins á. Um leið og þú gerir það gegn HK refsa þeir þér. Þeir komu til baka og gerðu okkur erfitt fyrir.“