Handbolti

Haukur semur við Kielce

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur er marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Olís-deildar karla í vetur.
Haukur er marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Olís-deildar karla í vetur. vísir/vilhelm
Haukur Þrastarson, leikmaður Selfoss og íslenska landsliðsins, gengur í raðir Póllandsmeistara Kielce næsta sumar.

Haukur, sem er 18 ára, hefur skrifað undir þriggja ára samning við Kielce.

Hann skaust upp á stjörnuhimininn á þarsíðasta tímabili þar sem hann var valinn efnilegasti leikmaður Olís-deildar karla og lék sinn fyrsta landsleik, aðeins 16 ára.

Haukur var valinn besti leikmaður EM U-18 ára í fyrra þar sem Ísland endaði í 2. sæti. Hann varð svo Íslandsmeistari með Selfossi á síðasta tímabili og var aftur valinn efnilegasti leikmaður Olís-deildarinnar. Hann lék tvo leiki með íslenska landsliðinu á HM í Danmörku og Þýskalandi.

Í tíu leikjum í Olís-deildinni í vetur hefur Haukur skorað 83 mörk og gefið 55 stoðsendingar. Hann er bæði marka- og stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar.

Haukur er annar Íslendingurinn sem leikur með Kielce. Sveitungi hans, Þórir Ólafsson, lék með liðinu á árunum 2011-14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×