Handbolti

Janus skoraði fjögur síðustu mörk Aalborg í sigri á þýsku meisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Janus dró Aalborg að landi gegn Flensburg.
Janus dró Aalborg að landi gegn Flensburg. vísir/getty
Janus Daði Smárason átti stórleik þegar Aalborg vann þriggja marka sigur á Flensburg, 31-28, í Meistaradeild Evrópu í gær.

Janus skoraði sjö mörk í leiknum og var næstmarkahæstur í liði Aalborg á eftir hornamanninum Sebastian Barthold sem gerði átta mörk.

Janus var sérstaklega drjúgur á lokakaflanum og skoraði fjögur síðustu mörk dönsku meistaranna í leiknum.

Barthold kom Aalborg í 27-23 með marki úr vítakasti á 49. mínútu. Þýsku meistararnir svöruðu með fjórum mörkum í röð og þegar sex mínútur voru eftir var staðan jöfn, 27-27.

Þá tók Janus til sinna ráða. Hann kom Aalborg í 28-27 en Flensburg jafnaði að bragði. Selfyssingurinn skoraði svo þrjú síðustu mörk leiksins og átti hvað stærstan þátt í að Aalborg landaði sigri á þýsku meisturunum.



Fyrir leikinn gegn Flensburg hafði Janus aðeins skorað fimm mörk í fyrstu fjórum leikjum Aalborg í Meistaradeildinni. Hann er nú kominn með tólf mörk í keppninni.

Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg sem er í 3. sæti A-riðils Meistaradeildarinnar með átta stig, jafn mörg og Barcelona og Paris Saint-Germain sem eru í tveimur efstu sætunum.

Janus er í íslenska landsliðinu sem mætir því sænska í tveimur vináttulandsleikjum á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×