Fótbolti

Ribéry hrinti línuverði í tvígang og gæti verið á leið í langt bann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ribéry í leiknum í gær.
Ribéry í leiknum í gær. vísir/getty
Franck Ribéry, leikmaður Fiorentina, gæti fengið langt bann fyrir að hrinda línuverði í tvígang eftir tap liðsins fyrir Lazio, 1-2, í ítölsku úrvalsdeildinni í gær. 

Mikið gekk á undir lok leiks. Ciro Immobile kom Lazio í 1-2 á 89. mínútu. Leikmenn Fiorentina vildu fá aukaspyrnu í aðdraganda marksins en ekkert var dæmt.

Þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fékk Lazio vítaspyrnu eftir að Luca Ranieri handlék boltann innan vítateig. Hann fékk einnig rauða spjaldið. Felipe Caicedo tók vítið en Bartlomiej Dragowski, markvörður Fiorentina, varði.

Ribéry lagði upp mark Fiorentina en var tekinn af velli þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.

Frakkinn var æfur eftir leikinn og lét reiði sína bitna á öðrum línuverðinum. Ribéry stjakaði tvisvar við línuverðinum og fékk rautt spjald fyrir. Hann fær sjálfkrafa þriggja leikja bann fyrir það en bannið verður væntanlega enn lengra.

Ribéry kom til Fiorentina frá Bayern München fyrir tímabilið. Hann hefur leikið alla níu leiki liðsins í ítölsku úrvalsdeildinni í vetur og skorað tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×