Víðtæk mótmæli standa enn yfir í Ekvador þar sem fólk krefst þess að niðurskurðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar verði hætt og að forsetinn Lenin Moreno segi af sér.
BBC segir frá því að í gærkvöldi hafi átta lögreglumenn verið teknir í gíslingu og mótmælendur úr röðum frumbyggja landsins sýndu þá uppi á sviði á fjölmennum mótmælafundi í Quito, höfuðborg landsins.
Moreno forseti lýsti á dögunum yfir neyðarástandi vegna mótmælanna og hefur hann flúið höfuðborgina og hefst nú við ásamt ríkisstjórn sinni í borginni Guayaquil.
Fjöldi hefur látist í mótmælunum sem hófust eftir að stjórnvöld hættu að niðurgreiða eldsneyti, en það var hluti af skilmálum sem gengist var undir til að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
