Skýrslan - “The Future is Now: Science for Achieving Sustainable Development,” – er birt í aðdraganda leiðtogafundar um heimsmarkmiðin í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna síðar í mánuðinum og verður aðal umfjöllunarefni fundarins. Að mati skýrsluhöfunda er heimurinn ekki á réttri leið með heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun sem samþykkt voru af öllum aðildarþjóðum Sameinuðu þjóðanna árið 2015 og eiga að vera í höfn árið 2030. Þeim er lýst í frétt frá Reuters sem einskonar „verkefnalista“ til að takast á við átök, hungur, landhnignun, jafnrétti kynjanna og loftslagsbreytingar.
Í skýrslunni segir að enn sé unnt að tryggja velsæld og útrýma fátækt á jörðinni fyrir árið 2030 – sem þá telur um 8,5 milljarða íbúa – en til þess að svo megi verða þurfi skjótt að breyta sambandi manns og náttúru og draga úr félagslegum og kynbundum ójöfnuði.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.