Fjölmiðlar á meginlandi Evrópu brugðust við fréttum af því að Boris Johnson yrði næsti forsætisráðherra Bretlands með undrun í dag. Á forsíðum dagblaða var Johnson ýmist lýst sem hirðfífli eða trúði.
Johnson hafði betur gegn Jeremy Hunt, utanríkisráðherra, í leiðtogavali Íhaldsflokksins í gær. Hann tekur við embætti forsætisráðherra af Theresu May í dag. Nokkrir úr framvarðarsveit Íhaldsflokksins hafa þegar lýst því yfir að þeir kæri sig ekki um að starfa í ríkisstjórn Johnson vegna ummæla hans um að hann gæti dregið Bretland úr Evrópusambandsins án samnings 31. október.
Sigri Johnson var fálega tekið í evrópsku pressunni. Johnson hefur ræktað ímynd flumbrugangs og hótfyndni og gerðu fjölmiðlar á meginlandi sér mat úr henni. The Guardian tók saman ummæli nokkurra fjölmiðla í Evrópu.
Þýska blaðið Der Spiegel varaði við því að Johnson myndi byrja á að brjóta loforð sín strax á morgun. Libération í Frakklandi birti fyrirsögnina „Hirðfífl drottningarinnar“ um nýja breska forsætisráðherrann.
Í svipaðan streng tók Frankfurter Allgemeine Zeitung í Þýskalandi. „Trúðurinn sem vildi vera konungur heimsins,“ var forsíða blaðsins. Politiken í Danmörku sagði að með Johnson gætu bresk stjórnmál orðið enn óútreiknanlegri en þau hafa verið til þessa og Belingske sagði Johnson líta út eins og mann sem svæfi í bílnum sínum og að það væri hans stíll.
Engu mildari voru írskir fjölmiðlar. Í leiðara Irish Times spurðu ritstjórarnir hversu langt Bretland gæti fallið.
„Brexit-klúðrið hefur gert landið klofið og biturt, þingið lamað, áhrif þess dvínandi, orðspor þess í molum. Nú er nýr lágpunktur: Boris Johnson er að verða forsætisráðherra. Það þýðir að hlutirnir gætu orðið enn verri,“ sagði í leiðaranum.
