Fótbolti

Rúnar og félagar úr leik en BATE fór áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Már lék fyrstu 82 mínúturnar gegn Cluj.
Rúnar Már lék fyrstu 82 mínúturnar gegn Cluj. vísir/getty
Rúnar Már Sigurjónsson var í byrjunarliði Astana frá Kasakstan sem tapaði fyrir Cluj frá Rúmeníu, 3-1, í seinni leik liðanna í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Astana vann fyrri leikinn, 1-0, en tapaði einvíginu, 3-2 samanlagt. Cluj mætir Maccabi Tel-Aviv frá Ísrael í næstu umferð. Astana mætir hins vegar Santa Coloma frá Andorra í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

Astana byrjaði leikinn vel og komst yfir á 4. mínútu en náði ekki að fylgja því eftir og fékk á sig þrjú mörk. Rúnar Már var tekinn af velli þegar átta mínútur voru eftir.

BATE Borisov tryggði sér sæti í 2. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar með sigri á Piast frá Póllandi, 1-2, í kvöld. Willum Þór Willumsson meiddist í upphitun en hann átti að vera í byrjunarliði BATE.

Fyrri leikurinn endaði með 1-1 jafntefli. Piast komst yfir á 21. mínútu í leiknum í kvöld og leiddi allt þar til átta mínútur voru til leiksloka. Hvít-Rússarnir jöfnuðu þá og skoruðu svo sigurmarkið þegar þrjár mínútur voru eftir.

BATE mætir Noregsmeisturum Rosenborg í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×