Handbolti

Afturelding vill selja nafnréttinn

Benedikt Bóas skrifar
Stuð í Varmá en það nafn gæti heyrt sögunni til.
Stuð í Varmá en það nafn gæti heyrt sögunni til. Fréttablaðið/Ernir
Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt með þremur atkvæðum að fela Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra að ræða við fulltrúa Aftureldingar um fyrirkomulag merkinga á íþróttamannvirkjum og að niðurstaðan verði kynnt bæjarráði. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs í gær.

Afturelding óskaði eftir heimild bæjarráðs til að hefja viðræður við aðila sem hafa áhuga á því að gera auglýsingasamning við félagið um nöfn íþróttamannvirkja að Varmá. Samkvæmt bréfi félagsins til bæjarráðs vill Afturelding feta í fótspor annarra íþróttafélaga sem hafa gert viðlíka styrktarsamninga. Samkvæmt bréfinu er áhugi á að gera slíkan samning en félagið vill tryggja að það sé gert í fullu samráði við Mosfellsbæ.

„Í dag hafa nær öll íþróttafélög í efstu deildum í hópíþróttum á Íslandi gert slíka samstarfssamninga. Fyrir nokkrum árum var í gildi samningur á milli Aftureldingar og fyrirtækisins N1 sem fól í sér að íþróttahúsið að Varmá bar heitið „N1 Höllin“. Fordæmi er því til staðar innan Mosfellsbæjar,“ segir í bréfinu.

Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna í bæjarráði bókaði að hann teldi það ekki góða þróun ef styrktarsamningur á milli Aftureldingar og einkafyrirtækis leiði til nafnbreytingar á skóla- og íþróttamannvirkjunum að Varmá sem séu alfarið í eigu Mosfellsbæjar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×