Sjá einnig: Nágranninn sem hringdi á lögregluna stígur fram og segir sína hlið
Hunt hefur skorað á Johnson í kappræður sem sýndar verða á bresku sjónvarpsstöðinni Sky News á þriðjudag. Hunt hyggst þar gagnrýna áætlun Johnsons um að ganga frá útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í haust. Hunt hefur þegar boðað komu sína í kappræðurnar en Johnson ekki.
„Ekki vera heigull, Boris. Hertu þig og sýndu þjóðinni að þú getir tekist á við hina gífurlegu gagnrýni sem þetta erfiðasta starf í landinu hefur í för með sér,“ skrifaði Hunt í pistli sem birtist í dagblaðinu The Times.
Auðvelt en einnig rangt að ráðast á Johnson
Lögreglan í London var kölluð að heimili Johnson snemma morguns á föstudag. Lögregla svaraði þar kalli nágranna sem heyrði Johnson og sambýliskonu hans rífast.Málið hefur vakið talsverða athygli í Bretlandi, ekki síst fyrir þær sakir að miklar líkur eru á því að Johnson verði næsti forsætisráðherra Bretlands en hann hefur haft töluvert forskot á keppinauta sína hingað til, þar á meðal Hunt.

Inntur eftir viðbrögðum við málinu sagði Hunt í samtali við Sky-fréttastofuna í morgun að allir glími við vandamál í einkalífinu.
„Það væri auðvelt að gagnrýna [Johnson] harkalega en það væri einnig rangt að gagnrýna [hann] harkalega,“ sagði Hunt. Þá bætti hann við að almenningur vilji ekki fylgjast með leiðtogaefnum skiptast á svívirðingum en ítrekaði að Johnson sýndi af sér „vanvirðingu“ með því að skorast undan kappræðum.
Sky-fréttastofan vísar jafnframt í skoðanakönnun sem gerð var meðal meðlima Íhaldsflokksins eftir að fréttir voru fluttar af meintum heimiliserjum Johnsons. Fylgi hans innan flokksins er þar sagt hafa helmingast og þar með sé Hunt sé kominn í yfirburðarstöðu. Næstu staðfestu kappræður á milli Hunt og Johnson verða á sjónvarpsstöðinni ITV þann 9. júlí næstkomandi.