Fótbolti

Van Gaal kennir Messi um ógöngur Barcelona í Meistaradeildinni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Messi í tapinu gegn Liverpool á Anfield.
Messi í tapinu gegn Liverpool á Anfield. vísir/getty
Fyrrum knattspyrnustjórinn, Louis van Gaal, er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum og segir það sem honum finnst. Hann lét Lionel Messi fá það óþvegið á dögunum.

Van Gaal stýrði Barcelona á árunum 1997-2000 en hann segir að Argentínumaðurinn eigi að aðlaga sig að Barcelona. Ekki öfugt.

Hollendingurinn segir að Messi hafi verið gefið of mikið frjálsræði í liðinu undanfarin ár og gagnrýnir Van Gaal síðustu stjóra Barcelona.

Barcelona tapaði á grátlegan hátt fyrir Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildarinnar sem kostaði þá sæti í úrslitunum og Van Gaal segir að það sé aðallega Messi að kenna.

„Ég held að það sé ekkert mikilvægara en liðsmaður. Barca tapar á því. Ég held að Messi ætti að spyrja sjálfan sig hvernig það er mögulegt að það sé svo langt síðan að hann vann Meistaradeildina,“ sagði Van Gaal.

„Kíkjum á Barcelona. Hversu marga Meistaradeildartitla hafa þeir unnið, með sem margir segja, besta leikmann heims? Kíkjum á Neymar hjá PSG. Hversu marga Meistaradeildartitla hafa þeir unnið?“

„Messi er besti einstaklingsleikmaður í heimi og tölfræðin hans er mögnuð. En af hverju hefur hann ekki unnið Meistaradeildina í fimm ár?“







„Sem fyrirliði liðsins verðurðu að spurja þig af hverju liðið vinnur ekki Evrópubikarinn. Ég held að Messi sé einnig ábyrgur fyrir því sem er að gerast hjá Barcelona, ekki bara þjálfarinn.“

„Þeir eru með leikmannahóp sem telur 30 leikmenn og ég held að Messi ætti að aðlaga sig að hópnum en ekki öfugt,“ sagði Van Gaal að lokum. Gefur ekkert eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×