Þegar hefur útgöngusáttmálinn sem ríkisstjórn Bretlands hefur samið við Evrópusambandið verið felldur þrisvar sinnum í breska þinginu. Theresa May er þó staðráðin í að fá sáttmálann samþykktan og mun leggja hann fram í fjórða sinn í fyrstu vikunni í júní.
Munurinn nú er að May hefur lagt upp með tíu punkta aðgerðaráætlun sem fylgir sáttmálanum. Hún segir að í áætluninni megi finna eitthvað sem flestir flokkar ættu að geta sætt sig við.
„Þessi nýi Brexit-samningur inniheldur miklar frekari breytingar til að standa vörð um efnahags- og stjórnskipunarleg heilindi Bretlands og sigla Brexit í höfn. Hann er klæðskerasaumuð lausn sem svarar sértækum áhyggjum allra hluta samfélagsins á Norður-Írlandi.“
Meðal þess sem felst í tíu punkta áætlun forsætisráðherrann er að ríkisstjórnin verði lagalega bindandi til að finna viðunandi lausn á framtíðarsambandi við Norður-Írlands án þess að það innlimist á tollasvæði Evrópusambandsins.
Þar má finna fyrirheit um vinnuréttarlöggjöf sem tryggir jöfn réttindi á við réttindi verkamanna innan ESB og svipað ákvæði um umhverfislöggjöf svo eitthvað sé nefnt. Þá segir hún að samþykki þingið sáttmálann muni hún opna á þann valmöguleika þingsins að skjóta sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Mörgum Íhaldsmönnum hugnast ekki önnur þjóðaratkvæðagreiðsla og hafa þegar lýst því yfir að þeir muni greiða atkvæði gegn nýja Brexitsáttmálanum. Þá hefur Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagt að nýji sáttmálinn sé lítið annað en endurvinnsla á fyrri sáttmálum sem þegar hafa verið felldir.