Erlent

Fyrrverandi forseti Súdan ákærður fyrir að drepa mótmælendur

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Omar al-Bashir fyrrverandi forseti Súdan.
Omar al-Bashir fyrrverandi forseti Súdan. getty/Mikhail Svetlov
Omar al-Bashir, fyrrverandi forseti Súdan, hefur verið ákærður fyrir að hvetja til og taka þátt í að drepa mótmælendur. Þetta kom fram í tilkynningu frá saksóknara þar í landi og greint hefur verið frá málinu á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Bashir var komið frá völdum í apríl þessa árs en þá hafði hann setið sem forseti Súdan frá því 1989 þegar hann tók þátt í valdaráni hersins. Mótmæli brutust út í desember þar sem afsögn hans var krafist.

Ákærurnar koma fram eftir rannsókna á dauðsfalli sjúkraliða, sem lét lífið í mótmælum sem leiddu síðar til loka valdatíðar Bashir.

Hvorki hefur sést né heyrst til Bashir síðan honum var komið frá völdum þann 11. apríl.

Fréttir hafa borist um að búið sé að færa hann í fangelsi í Khartoum.

Bashir var í byrjun maí færður fyrir saksóknara til yfirheyrsla vegna gruns um peningaþvott og fjármögnunar á hryðjuverkastarfsemi.

Nú fer ráð hersins með stjórn landsins en mótmælendur hafa krafist þess að völdum sé komið í hendur fulltrúa almennings.

Viðræður hersins og sameinaðrar stjórnarandstöðu hafa nú hafist til þess að mynda stjórn beggja hópa til að fara með stjórn landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×