Fótbolti

Annað árið í röð sem Alisson á þátt í ótrúlegri endurkomu gegn Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alisson fagnar með liðsfélögum sínum eftir sigurinn frækna á Barcelona.
Alisson fagnar með liðsfélögum sínum eftir sigurinn frækna á Barcelona. vísir/getty
Alisson hélt marki sínu hreinu þegar Liverpool tryggði sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu með 4-0 sigri á Barcelona á Anfield í gær. Börsungar unnu fyrri leikinn á Nývangi, 3-0.

Þetta er annað árið í röð sem brasilíski markvörðurinn tekur þátt í ótrúlegri endurkomu gegn Barcelona í Meistaradeildinni.

Á síðasta tímabili stóð hann milli stanganna hjá Roma sem sneri að því er virtist ómögulegri stöðu gegn Barcelona í Meistaradeildinni við.

Í fyrra vann Barcelona fyrri leikinn gegn Roma í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, 4-1, og Katalónarnir voru þar með komnir með annan fótinn í undanúrslit keppninnar.

Rómverjar gáfust hins vegar ekki upp, unnu seinni leikinn með þremur mörkum gegn engu og tryggðu sér sæti í undanúrslitunum í fyrsta sinn síðan 1984.

Þar mætti Roma Liverpool. Alisson þurfti að hirða boltann fimm sinnum úr netinu hjá sér í fyrri leiknum á Anfield sem Liverpool vann, 5-2. Roma vann seinni leikinn á sínum heimavelli, 4-2, en það dugði ekki til.

Liverpool keypti Alisson frá Roma fyrir um 67 milljónir punda í sumar. Hann var dýrasti markvörður í heimi í nokkrar vikur, eða þar til Chelsea keypti Kepa Aarrizabalaga frá Athletic Bilbao fyrir 72 milljónir punda.

Alisson, sem er 26 ára, hefur leikið 49 leiki fyrir Liverpool í öllum keppnum á tímabilinu. Liðið er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, einu stigi á eftir Manchester City. Í lokaumferðinni á sunnudaginn mætir Liverpool Wolves.








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×