Í tilkynningu Eimskip til Kauphallarinnar segir að markmið skipulagsbreytinganna sé að „samþætta hluta af stoðeiningum félagsins“ í miðlægar einingar. Í því samhengi er nefnt að þrjár mismunandi akstursstýringardeildir sameinast í eina einingu.
„Talsverð breyting verður á starfsemi TVG-Zimsen þar sem hluti stoðeininga þess sameinast sambærilegum einingum Eimskips. Einnig mun TVG-Zimsen flytja starfsemi sína yfir í Vöruhótelið síðar í sumar. TVG-Zimsen verður eftir sem áður rekið sem sjálfstætt dótturfyrirtæki Eimskips,“ segir auk þess í tilkynningu Eimskips.
„Markmið breytinganna er að ná fram hagræðingu í rekstri, auka arðsemi og styrkja stoðir félagsins enn frekar til framtíðar.“
Uppsagnir í nóvember og janúar
Töluverðar breytingar hafa orðið á Eimskip á síðustu mánuðum. Til að mynda tók nýr forstjóri við í janúar, Vilhelm Már Þorsteinsson, auk þess sem bandarískt sjóðsstýringarfyrirtæki hefur aukið hlut sinn í Eimskip umtalvert.Eimskip sagði jafnframt upp 18 starfsmönnum í nóvember síðastliðnum. Uppsagnirnar voru sagður liður í hagræðingarvinnu sem staðið hafi yfir undanfarið ár. Þá voru gerðar breytingar á 10 stöðugildum hjá félaginu í janúar, sem mörg hver voru lögð niður. Flest þessara stöðugilda vörðuðu millistjórnendur hjá félaginu.
Þá tilkynnti Eimskip í lok síðsta árs að fyrirhugaðar væru töluverðar breytingar á siglingakerfi félagsins, sem framkvæmdastjóri hjá félaginu lýsti sem „hryggjarstykkinu“ í þjónustu Eimskips fyrir inn- og útflutning.
Fréttin hefur verið uppfærð