Helgi Magnússon, fjárfestir og fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins og Lífeyrissjóðs verslunarmanna, er kominn í hóp stærstu hluthafa Kviku banka með ríflega 1,1 prósents hlut. Miðað við núverandi gengi hlutabréfa í fjárfestingarbankanum er hluturinn metinn á um 215 milljónir króna.
Samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa Kviku, dagsettum 5. apríl, er félagið Hofgarðar, sem er að fullu í eigu Helga, tuttugasti stærsti hluthafi bankans með 1,13 prósenta hlut.
Til samanburðar átti félagið 0,7 prósenta hlut í Kviku í lok síðasta árs en hlutabréfaverð bankans hefur hækkað um ríflega fimmtung frá áramótum.
Kvika banki var sem kunnugt er skráður á aðalmarkað Kauphallarinnar í lok síðasta mánaðar eftir eitt ár á First North markaðinum. Gengi hlutabréfa í bankanum hefur hækkað um meira en 25 prósent á síðustu tólf mánuðum og þar af um 22 prósent það sem af er þessu ári. Er markaðsvirði bankans um 19 milljarðar króna.
Helgi gegnir stjórnarformennsku í Bláa lóninu, þar sem hann er á meðal stærstu hluthafa með um 6,2 prósenta hlut, sem og í Húsasmiðjunni.
Eins og fram hefur komið hætti Helgi í stjórn Marels á aðalfundi félagsins í byrjun síðasta mánaðar en hann hafði setið í stjórninni frá árinu 2005. Þá lét hann jafnframt af stjórnarmennsku í N1 í kjölfar kaupa olíufélagsins á Festi síðasta haust en hann hóf stjórnarstörf hjá félaginu árið 2012.
Helgi var formaður Samtaka iðnaðarins á árunum 2006 til 2012 og sat í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna árin 2007 til 2016, þar af sem formaður frá 2010 til 2013.
Helgi í hóp stærstu hluthafa Kviku
Kristinn Ingi Jónsson skrifar

Mest lesið

Ætlar ekki að deyja í smán og gefur frá sér auðæfin
Viðskipti erlent



Fluttu mun minna til Bandaríkjanna en meira annað
Viðskipti erlent

Vilja nota geimflaugar til að flytja hergögn hvert sem er
Viðskipti erlent

Minnkuðu lúxuspinna en ekki eldflaugina
Neytendur

Að segja upp án þess að brenna brýr
Atvinnulíf

„Umbreyting í átt að velsældarhagkerfi krefst hugrekkis“
Viðskipti innlent

Salan á Íslandsbanka: Samið við fjóra erlenda söluaðila
Viðskipti innlent
