Helgi Magnússon, fjárfestir og fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins og Lífeyrissjóðs verslunarmanna, er kominn í hóp stærstu hluthafa Kviku banka með ríflega 1,1 prósents hlut. Miðað við núverandi gengi hlutabréfa í fjárfestingarbankanum er hluturinn metinn á um 215 milljónir króna.
Samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa Kviku, dagsettum 5. apríl, er félagið Hofgarðar, sem er að fullu í eigu Helga, tuttugasti stærsti hluthafi bankans með 1,13 prósenta hlut.
Til samanburðar átti félagið 0,7 prósenta hlut í Kviku í lok síðasta árs en hlutabréfaverð bankans hefur hækkað um ríflega fimmtung frá áramótum.
Kvika banki var sem kunnugt er skráður á aðalmarkað Kauphallarinnar í lok síðasta mánaðar eftir eitt ár á First North markaðinum. Gengi hlutabréfa í bankanum hefur hækkað um meira en 25 prósent á síðustu tólf mánuðum og þar af um 22 prósent það sem af er þessu ári. Er markaðsvirði bankans um 19 milljarðar króna.
Helgi gegnir stjórnarformennsku í Bláa lóninu, þar sem hann er á meðal stærstu hluthafa með um 6,2 prósenta hlut, sem og í Húsasmiðjunni.
Eins og fram hefur komið hætti Helgi í stjórn Marels á aðalfundi félagsins í byrjun síðasta mánaðar en hann hafði setið í stjórninni frá árinu 2005. Þá lét hann jafnframt af stjórnarmennsku í N1 í kjölfar kaupa olíufélagsins á Festi síðasta haust en hann hóf stjórnarstörf hjá félaginu árið 2012.
Helgi var formaður Samtaka iðnaðarins á árunum 2006 til 2012 og sat í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna árin 2007 til 2016, þar af sem formaður frá 2010 til 2013.
Helgi í hóp stærstu hluthafa Kviku
Kristinn Ingi Jónsson skrifar

Mest lesið

Engin bráð hætta á „bíólausu Íslandi“
Viðskipti innlent




Rukka í „rennuna“ á flugvellinum
Neytendur

Setur háa tolla á Evrópu
Viðskipti erlent

Norskir komast í Víking gylltan
Neytendur


Mátti greiða himinháan reikning korter í þrot eftir allt saman
Viðskipti innlent

Góa tekur yfir framleiðslu á Omnom
Viðskipti innlent