Kristjón Kormákur Guðjónsson hefur sagt upp störfum sem aðalritstjóra DV. Þetta staðfestir Kristjón í samtali við Vísi. Hann segir erfitt að kveðja góða vini á fréttastofunni en tími hafi verið kominn á nýja áskorun. Kristjón gengur til liðs við Hringbraut.
„Það var í rauninni bara kominn tími til að gera eitthvað annað. Þetta er erfitt starf sem er unnið allan sólarhringinn,“ segir Kristjón sem hefur gegnt stöðu aðalritstjóra í rúmt ár. Hann gekk til liðs við Pressuna árið 2012 þegar Björn Ingi Hrafnsson réð þar ríkjum. Pressan tók svo yfir DV sem er nú í eigu Frjálsrar fjölmiðlunar, sem Sigurður G. Guðjónsson lögmaður er í forsvari fyrir. Karl Garðarsson gegnir stöðu framkvæmdastjóra.
Kristjón er ekki meðvitaður um frekari breytingar hjá DV þessa dagana. Það hafi þó verið blóðtaka þegar tveimur blaðamönnum var sagt upp í byrjun febrúar auk eins sem hætti. Allir þrír tilheyrðu fréttateyminu. Verið sé þó að ganga frá ráðningu á tveimur blaðamönnum að sögn Kristjóns.
Hann er spenntur fyrir nýjum tímum hjá sjónvarpsstöðinni Hringbraut en hlutverk Kristjóns verður að blása lífi í vef miðilsins. Rífa hann upp eins og Kristjón kemst að orði og tengja saman sjónvarpshlutann og vefhlutann.
„Þar er fullt af tækifærum,“ segir Kristjón sem hlakkar mjög til samstarfsins við Sigmund Erni Rúnarsson sjónvarpsstjóra. Hann mætir til vinnu á Hringbraut á morgun.

