Handbolti

Snorri Steinn: Hægt að túlka reglurnar eftir hentisemi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snorri Steinn vonast til að Daníel Freyr spili næsta leik og haldi sig þá inni í teignum.
Snorri Steinn vonast til að Daníel Freyr spili næsta leik og haldi sig þá inni í teignum. vísir/bára
Snorri Steinn Guðjónsson, annar þjálfara Vals, er ekki sammála þeirri ákvörðun dómara leiks Valsmanna og FH-inga að gefa markverðinum Daníel Frey Andréssyni rauða spjaldið.

Á 53. mínútu kom Daníel út að miðlínu til að ná boltanum. Það tókst en í leiðinni lenti hann í samstuði við FH-inginn Jakob Martin Ásgeirsson. Eftir að hafa stuðst við myndbandsupptöku sýndu dómararnir Daníel rauða spjaldið. Atvikið má sjá hér fyrir neðan.



Í samtali við Vísi fyrr í dag sagði Reynir Stefánsson, formaður dómaranefndar HSÍ, að um réttan dóm hafi verið að ræða og vísaði í reglu 8.5. Þar segir að markvörður beri ábyrgð á því ekki skapist aðstæður sem geta verið hættulegar heilsu mótherjans er hann fer út úr sínum vítateig til að komast inn í sendingu.

„Þessar blessuðu reglur. Það er hægt að túlka þær eftir hentisemi. Ég túlkaði þetta ekki eins og dómararnir,“ sagði Snorri við Vísi í dag. Hann segir að ekki hafi verið um sendingu fram völlinn að ræða.

„Ef menn skoða atvikið gaumgæfilega sést að þetta er ekki sending. Og sending er ekki túlkunaratriði.“

Snorri segist þó ekki vera hrifinn af því þegar markverðir fara út úr teignum til að reyna að komast inn í sendingar. Og hann vonast til að Daníel fái ekki bann og verði með Val gegn KA á miðvikudaginn.

„Vonandi hefur þetta ekki neina eftirmála og Daníel verður í markinu í næsta leik og heldur sig inni í teignum,“ sagði Snorri.

Valsmenn eru í 3. sæti Olís-deildarinnar og enda ekki neðar en það. Tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni.

Reglan 8.5.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×