Erlent

Samþykktu að skipa May að biðja ESB um frest

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá neðri deild breska þingsins.
Frá neðri deild breska þingsins. Vísir/EPA
Neðri deild breska þingsins samþykkti tillögu um að skipa Theresu May, forsætisráðherra, að biðja Evrópusambandið um frest á útgöngu Bretlands með eins atkvæðis mun í gærkvöldi. Tillögunni er ætlað að koma í veg fyrir að Bretland gangi úr sambandinu án samnings.

Evrópusambandið hefur þegar framlengt Brexit-ferlið til 12. apríl en upphaflega ætluðu Bretar að ganga út 29. mars. Forsvarsmenn sambandsins hafa sagt að frekari skammtímafrestun sé ekki í boði en hafa ekki útilokað að veita frest til lengri tíma.

Samkvæmt tillögunni sem Yvette Cooper, þingkona Verkamannaflokksins, lagði fram á May að biðja ESB um frest umfram 12. apríl en það yrði í höndum þingsins að ákveða hversu langan. Lávarðadeildin þarf að samþykkja frumvarpið áður en það verður að lögum. Evrópusambandið þarf að samþykkja að veita frestinn.

Ríkisstjórn May reyndi að takmarka áhrif frumvarpsins en breytingartillaga var felld með 180 atkvæða mun. Það er næst stærsti ósigur ríkisstjórnar í neðri deildinni í samtímasögunni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Sá stærsti var þegar útgöngusamningur May var felldur í janúar.

Frumvarpið segir ríkisstjórnin að bindi hendur May verulega í samningaviðræðum um frestun við Evrópusambandið.


Tengdar fréttir

Sjá rautt vegna samstarfs við Corbyn

Harðir Brexit-sinnar innan breska Íhaldsflokksins eru foxillir vegna viðræðna leiðtogans við leiðtoga Verkamannaflokksins. Þau reyna nú að leysa úr pattstöðunni sem myndast hefur á þingi í Brexit-málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×