Erlent

Bretar óska eftir framlengingu á fresti til júníloka

Kjartan Kjartansson skrifar
May og Tusk þegar þau funduðu í Egyptalandi í febrúar.
May og Tusk þegar þau funduðu í Egyptalandi í febrúar. Vísir/EPA
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, skrifaði Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, bréf í dag þar sem hún fór fram á að Evrópusambandið samþykki að fresta útgöngu þeirra til 30. júní svo þingmenn geti komið sér saman um útgöngusamning. Tusk er sagður ætla að bjóða Bretum tólf mánaða frestun.

Reuters-fréttastofan segir að í bréfinu leggi May einnig áherslu á að útgöngunni verði flýtt verði samningur hennar samþykktur tímanlega. Þannig vilji hún komast hjá því að Bretar þurfi að taka þátt í Evrópuþingskosningum í vor sé þess nokkur kostur. Ríkisstjórn hennar undirbúi kosningarnar engu að síður ef aðrir möguleikar verða ekki í stöðunni.

Evrópusambandið hefur þegar framlengt frest til að ganga frá Brexit einu sinni en hann á að renna út 12. apríl. Fulltrúar þess hafa sagt að engir frekari skammtímafrestir séu í boði. Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir heimildarmönnum í dag að Tusk hafi lagt til tólf mánaða „sveigjanlegan“ frest á útgöngunni. Bretar gætu þannig gengið fyrr út ef breska þingið samþykkir útgöngusamning.

Þingmenn felldu útgöngusamning May í þriðja skipti fyrir viku. Í kjölfarið óskaði May eftir að útgöngunni yrði frestað tímabundið en upphaflega ætluðu Bretar að ganga út 29. mars.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×