Helle Thorning-Schmidt hvatti leiðtogana sem hittust í Brussel til að hlusta á börnin í Sýrlandi. „Þrátt fyrir allar þær hörmungar og raunir sem þau hafa gengið í gegnum eru þau bjartsýn og staðráðin í að skapa betri framtíð. Þau krefjast friðar, stöðugleika og menntunar – og það er í höndum þessa fundar á vegum alþjóðasamfélagsins að stuðla að því að svo verði.“
Niðurstöðurnar eru birtar í nýrri skýrslu Barnaheilla – Save the Children, A Better Tomorrow: Syria’s Children Have Their Say. Börn í fjórum héruðum í Sýrlandi, sem hafa orðið illa úti í stríðinu, svöruðu spurningalista auk þess sem umræður fóru fram í rýnihópum
„Helmingur þeirra barna sem tóku þátt í könnuninni taldi ofbeldi, aðskilnað frá fjölskyldu, eyðileggingu heimilis og innviða auk skort á grunnþjónustu, svo sem menntun og heilsugæslu „mjög alvarlegan“ vanda fyrir þau sjálf og samfélagið. Þrátt fyrir þetta er meirihluti barnanna vongóður um framtíðina og hlutverk sitt í að skapa betra Sýrland svo lengi sem friður og stöðugleiki ríkir. Frá því stríðið í Sýrlandi hófst, fyrir átta árum, hafa fæðst fjórar milljónir barna sem flest þekkja ekkert annað en stríð. Könnunin veitir örlitla innsýn í reynslu barna og þörf er á frekari aðstoð og ráðgjöf til að hægt sé að greina þörf allra barna og samfélaga þeirra fyrir endurhæfingu og bata,“ segir í fréttinni.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.