Japanski bílaframleiðandinn Nissan hefur tilkynnt að fyrirtækið hyggist ekki láta framleiða nýja tegund bíla í bresku borginni Sunderland. Nissan segir að óvissan í kringum Brexit sé helsta ástæðan fyrir breytingunum. CNN greinir frá.
Árið 2016 hafði Nissan gefið það út að ný gerð X-Trail bíla framleiðandans yrði framleiddur í verksmiðju Nissan í Sunderland í Norðaustur Englandi. Sú ákvörðun var tekin eftir að breska ríkisstjórnin hafði greint stjórn fyrirtækisins frá stöðunni eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Brexit. Forsætisráðherrann, Theresa May, hrósaði af því tilefni fyrirtækinu og sagði ákvörðunina merki um traust á breskt viðskiptalíf.
Nú hefur Nissan hins vegar snúist í afstöðu sinni til breskra viðskipta og mun framleiðslan á X-Trail fara fram í Japan.
Óvissan um samband Bretlands við Evrópusambandið hjálpar fyrirtækjum, eins og okkar, ekkert til að horfa til framtíðar sagði Gianluca de Ficchy, yfirmaður Nissan í Evrópu.
Nissan í Sunderland er stærsta bílaverksmiðja í Bretlandi og starfa þar um 7000 manns, áformum Nissan um framleiðslu á bílunum Juke og Qashqai verður ekki haggað samkvæmt de Ficchy.
