Fótbolti

Valdi Katar frekar en ensku úrvalsdeildina

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Mehdi Benatia.
Mehdi Benatia. vísir/getty
Marokkóski varnarmaðurinn Medhi Benatia er að ganga til liðs við katarska meistaraliðið Al-Duhail frá ítalska stórveldinu Juventus og það þrátt fyrir áhuga enska úrvalsdeildarliða á borð við Arsenal og Manchester United.

Rui Faria, fyrrum aðstoðarmaður Jose Mourinho hjá Man Utd og Chelsea, tók nýverið við stjórnartaumunum hjá Al-Duhail en liðið hefur unnið úrvalsdeildina í Katar sex sinnum frá árinu 2010.

Benatia er fæddur og uppalinn í Frakklandi og hefur leikið með Roma, Udinese og Bayern Munchen en þessi 31 árs gamli miðvörður hefur nú ákveðið að yfirgefa Evrópuboltann.

„Benatia óskaði eftir því að fá að fara. Það þjónar engum tilgangi að halda leikmanni sem vill ekki vera hérna. Benatia átti góð ár hjá Juventus og mér þykir sárt að hann sé að fara en ég get ekki komist inn í hausinn á honum og breytt hans skoðun. Hann tekur þessa ákvörðun og þar við situr,“ sagði Max Allegri, stjóri Juventus.

Juventus hefur þegar náð í leikmann til að fylla skarð Benatia því Martin Caceres er kominn til ítölsku meistaranna frá Lazio en þetta er í þriðja sinn á ferlinum sem hann gengur til liðs við Juventus.

Hjá Al-Duhail hittir Benatia fyrir liðsfélaga sinn hjá marokkóska landsliðinu, Youssef El-Arabi en hann hefur skorað 53 mörk í 41 leik í Katar síðan hann kom frá Granada á Spáni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×