Fótbolti

Einn sem sannar tómatsósukenningu Van Nistelrooy

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Duván Zapata.
Duván Zapata. Getty/Paolo Bruno
Kólumbíumaðurinn Duván Zapata er að gera frábæra hluti þessa dagana í ítalska fótboltanum en það er ekki búið að vera þannig allt tímabilið.

Duván Zapata skoraði aðeins eitt mark í fyrstu þrettán leikjum sínum með Atalanta en allt breyttist þetta þegar jólamánuðurinn rann í garð.

Ruud van Nistelrooy, fyrrum framherji Manchester United, setti á sínum tíma fram fræga tómatsósukenningu um heim markaskorarans um að stundum kemur ekkert úr flöskunni eða allt þar til að „stíflan“ brestur og tómatsósan flæðir úr flöskunni.

Það má segja að Duván Zapata hafi sannað tómatsósukenningu Van Nistelrooy í vetur.

Zapata skoraði loksins sitt annað mark á leiktíðinni í fyrsta leik í desember en hann hefur ekki hætt að skora síðan og setti nýtt met með marki sínu um helgina.

Zapata hefur skorað í átta deildarleikjum Atalanta í röð en þar liggur ekki metið því hann hefur alls skorað fjórtán mörk í þessum átta leikjum sem er magnaður árangur.





Duván Zapata hefur nú skorað jafnmörg mörk og Cristiano Ronaldo og aðeins einu marki minna en Fabio Quagliarella sem er markahæsti leikmaður ítölsku deildarinnar í dag.

Duván Zapata er sá eini sem hefur skorað tvær þrennur á leiktíðinni og þær komu báðar í þessum átta síðustu leikjum. Önnur þrennan var meira að segja ferna í 5-0 sigri Atalanta á Frosinone.

Það er samt athyglisvert að tveir Atalanta menn, Josip Ilicic og Duván Zapata, eiga fjórar af fimm þrennum tímabilsins.

Josip Ilicic hefur aðeins skorað í tveimur leikjum á tímabilinu og þrennu í þeim báðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×