Erlent

Bakhjarlar útgöngusinna telja að ekkert verði af Brexit

Kjartan Kjartansson skrifar
Auðkýfingurinn Peter Hargreaves er með böggum hildar vegna Brexit þessa dagana.
Auðkýfingurinn Peter Hargreaves er með böggum hildar vegna Brexit þessa dagana. Vísir/Getty
Tveir stærstu fjárhagslegu bakhjarlar Brexit-sinna á Bretlandi segjast nú telja að ríkisstjórnin muni hætta við útgönguna úr Evrópusambandinu. Til stendur að breska þingið greiði atkvæði um útgöngusamning Theresu May forsætisráðherra í næstu viku.

Peter Hargreaves, einn auðugasti maður Bretlands og annar stærsti bakhjarl útgöngusinna fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna árið 2016, og Crispin Odey, vogunarsjóðsstjóri, segja Reuters-fréttastofunni að þeir búist við því að Bretland verði um kyrrt í ESB þrátt fyrir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Odey segist nú búa sig undir að taka stöðu miðað við að pundið styrkist. Hann hafði áður hagnast á því að veðja gegn breskum eignum þegar áhyggjur af afleiðingum Brexit skóku markaði.

„Ég hef algerlega gefist upp. Ég er algerlega örvinlaður, ég held að það verði alls ekkert af Brexit,“ segir Hargreaves sem gaf 3,2 milljónir punda, tæpan hálfan milljarð króna, í kosningabaráttu útgöngusinna.

Búist er við því að þingmenn felli útgöngusamning May í atkvæðagreiðslu í þinginu á þriðjudag. May frestaði atkvæðagreiðslu sem átti að fara fram í desember og hefur reynt að knýja fram hagstæðari samning í Brussel, án árangurs.

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, varar við því að samningurinn verði felldur sé hætta á að breskt samfélag lamist vegna Brexit. Mögulegt sé að ekkert verði þá af útgöngunni yfir höfuð vegna þess að þingmenn myndu að öllum líkindum ekki samþykkja að ganga úr sambandinu án samnings. Amber Rudd, innanríkisráðherra, segir að útganga án samnings væri slæm fyrir Bretland en rétt sé af ríkisstjórninni að undirbúa þann möguleika.

„Ég er staðráðin í að tryggja að við finnum annað möguleika,“ segir Rudd.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×