Eftirlitskerfi hafa verið sett upp á Bretlandi til þess að verjast drónum í kjölfar þess að óþekktir drónar ollu gríðarlegum röskunum á flugferðum á Gatwick-flugvelli rétt fyrir jól. Öryggismálaráðherra Bretlands segir að þeir sem beita drónum á hættulegan hátt eða í glæpsamlegum tilgangi megi eiga von á strangri refsingu.
Um það bil þúsund flugferðir urðu fyrir truflunum þegar drónar stöðvuðu umferð um Gatwick-flugvöll í 36 klukkustundir í síðustu viku. Lögreglunni hefur enn ekki tekist að hafa hendur í hári þeirra sem stýrðu drónunum.
Ben Wallace, öryggismálaráðherra Bretlands, segir að vöktunarkerfi hafi nú verið komið upp sem geti komið auga á dróna. Breska ríkisútvarpið BBC segir að ráðherrann hafi þó ekki skýrt frekar hvernig kerfið virkaði eða hversu hratt væri hægt að taka það í notkun. Áströlsk yfirvöld tilkynntu að þau ætluðu að setja upp skynjara sem gætu greint dróna á flugi í gær.
Yfirvöld á Gatwick-flugvelli eru sögð hafa eytt fimm milljónum punda í nýjan tækjabúnað og tækni til að koma í veg fyrir frekari drónatruflanir.
Par á miðjum aldri var handtekið í tengslum við rannsóknina á uppákomunni á Gatwick en þeim var síðar sleppt. Sum ensku götublaðanna birtu nöfn og myndir af fólkinu á forsíðum sínum. Fólkið segist miður sín yfir umfjölluninni.
„Við biðjum fjölmiðla um að virða einkalíf okkar og leyfa okkur að reyna að komast í gegnum jólin eftir því sem við best getum,“ sagði fólkið í yfirlýsingu.
Bretar koma sér upp drónavörnum

Tengdar fréttir

Tvennt í haldi vegna drónaflugs við Gatwick
Flugmálayfirvöld á Gatwick hafa gefið út að til standi að flytja 124 þúsund farþega til og frá vellinum í dag.

Miklar raskanir á flugi frá Gatwick vegna dróna
Miklar raskanir hafa orðið á flugi frá Gatwick flugvelli eftir að drónar sáust á flugi í grennd við völlinn.

Grunaðir drónaflugmenn leystir úr haldi
Parið sem handtekið var grunuð um að bera ábyrgð á drónaflugi yfir Gatwick var sleppt úr haldi í dag. Lögregla telur þau ekki bera sök.